141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[16:19]
Horfa

Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S) (andsvar):

Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið.

Ég get vissulega tekið undir að það er fagnaðarefni að halda eigi áfram endurgreiðslu á virðisaukaskattinum. Sjálf er ég ekki mjög fylgjandi bótakerfinu en verið er að tala um hækkanir annars vegar á barnabótum og hins vegar vaxtabótum, eins og þingmaðurinn kom inn á. Ég held því miður að staðreyndin sé sú að það eru einmitt fjölskyldurnar sem verða fyrir barðinu á breytingunum í þessu frumvarpi. Hvað gerist? Það eru þeirra skuldir sem hækka og þá skipta barnabætur engu máli og vaxtabæturnar ekki heldur.

Ég mundi frekar vilja sjá þá einstaklinga hafa meira um sín eigin fjármál að segja og að við mundum leggja minni áherslu á að byggja upp kerfi bóta því það er mjög ógagnsætt.

Annað tengt því sem þingmaðurinn hefur komið inn á, bæði í dag og áður, er það að við séum með lægsta skatthlutfallið af Norðurlöndunum. Ég held að við hérna í þingsalnum mættum hugsa okkur aðeins um við hverja við erum að bera okkur saman. Kannski ættum við að fara að bera okkur saman við einhver önnur lönd því skattheimtan er svo gífurleg á Norðurlöndunum að það er engu lagi líkt. Mér finnst það ekki eitthvað til þess að vera stoltur af að vera með lægsta skatthlutfallið á Norðurlöndunum því það er virkilega mikið á einstaklinga lagt og mikið af völdum færð frá einstaklingum til ríkisvaldsins og til þeirra sem fara með fjármálavaldið. Ég vil sjá einstaklingana ráða meiru í sínu máli.

Að lokum um að hér séu ekki hækkaðar álögur á einstaklinga. Það er hreinlega ekki rétt. Gjaldið varðandi Ríkisútvarpið er skýrt dæmi um það.