141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[16:21]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta eru góð og gagnleg skoðanaskipti. Það er beinlínis komið fram að hv. þingmaður er lítið hrifinn af bótakerfunum, til að mynda vaxtabótum og barnabótum, sem við notum til tekjujöfnunar í íslensku samfélagi eftir norræna módelinu sem hv. þingmanni þykir augljóslega ekki eftirsóknarvert módel. Það er einfaldlega afstaða. Það er hins vegar afstaða okkar í stjórnarmeirihlutanum að norræna módelið sé einmitt mjög eftirsóknarvert. Þar er það sannarlega þannig að skattbyrði er tiltölulega há borið saman við ýmsa aðra heimshluta þótt hún sé lægst hér af öllum Norðurlöndunum. Á móti kemur að hún tryggir líka gríðarlega góð lífskjör. Í öllum alþjóðlegum samanburði eru það einmitt þau lönd sem raða sér í efstu sætin yfir lífskjör og lífsgæði almennt fyrir fólkið sem þar býr og þykir það víða býsna eftirsóknarvert. Það er auðvitað afstaða að sú aðferð við að byggja upp samfélag sé ekki eftirsóknarverð.

Ég vildi síðan, vegna ræðu hv. þingmanns, aðeins nefna séreignarsparnaðinn. Það er misskilningur að úttektirnar úr séreignarsparnaðinum þýði að hagvöxturinn sé drifinn áfram af einkaneyslu vegna þess að þótt það sé rétt að úttektirnar hafa verið umtalsverðar, og numið trúlega nærfellt 80 milljörðum, hafa inngreiðslurnar á sama tíma verið umtalsvert meiri. Við höfum verið að auka sparnaðinn í séreignarkerfinu í gegnum þann tíma þannig að það hefur ekki verið að skapa neyslu sem hefur drifið áfram hagvöxt. (Gripið fram í.) Hvað sagði hv. þingmaður? (JónG: Hefði sá sparnaður hætt?) Ég er einfaldlega að draga það fram að við höfum aukið séreignarsparnaðinn, ekki dregið úr honum með þeim ráðstöfunum sem gripið hefur verið til á síðustu árum. Þannig er það.