141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[16:28]
Horfa

Erla Ósk Ásgeirsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að taka undir með hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni. Ég er alveg sammála honum hvað þetta varðar, eins og t.d. með tóbaksgjaldið. Það hefur verið reiknað út að gjaldið muni hafa þau áhrif sem hv. þingmaður nefndi, verðtryggðar skuldir heimilanna munu hækka um 2,5 milljarða. Í ræðu minni kom ég einmitt inn á að ég tel að hækkunin á barnabótum og vaxtabótum komi mjög lítið upp í þær hækkanir sem við horfumst í augu við á næsta ári. Við höfum ekki einu sinni fyrir framan okkur hversu mikill kostnaðurinn er sem fylgir annars vegar fjárlagafrumvarpinu og hins vegar þeim bandormi sem við ræðum hér í dag.

Það væri mjög gott, og að ég held mjög gott verklag, ef við mundum temja okkur það í þinginu að reikna út áhrif lagasetninga sem eru gerðar hér, áhrif þeirra á fjölskyldurnar í landinu og á verðtryggð lán. Á meðan það kerfi er enn við lýði að meginþorri lána er verðtryggður verðum við að gera okkur grein fyrir þeim áhrifum sem lagasetning hefur í för með sér.

Auðvitað má fagna því að barnabætur og vaxtabætur séu hækkaðar en það er samt mjög erfitt að gera sér grein fyrir því hvort það hjálpar fólki að brúa bilið sem verður til með hækkunum sem eru boðaðar í frumvarpinu og öðrum sem koma frá ríkisstjórninni.