141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[16:49]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður vitnaði til ræðu minnar við þessa umræðu í gær og hefur augljóslega ekki skilið ummælin. Það er einfaldlega misskilningur hjá hv. þingmanni að lágir skattar auki verðmætasköpun. Þannig er því ekki varið. Þetta er einhver sjálfsblekking sem hægri menn á ákveðnum tíma í tilteknum löndum töldu sér trú um. Raunin er allt önnur. Mesta verðmætasköpun í veröldinni er í þeim löndum þar sem skattstig er hæst. Þau lönd fjárfesta mest í rannsóknum, þróunarstarfi, nýsköpun, menntun, heilbrigði og samgöngum sem eru ábatasömustu fjárfestingarnar.

Það voru lágskattalöndin; Ísland, Írland, Eistland, Lettland og Litháen, sem fóru á hausinn. Það voru háskattalöndin; Finnland, Svíþjóð, Danmörk, Noregur, Þýskaland, sem stóðu það af sér vegna þess að þar er ekki þetta sjálfgefna samhengi á milli lágra skatta og verðmætasköpunar. Það er einfaldlega misskilningur af hálfu hv. þingmanns.

Hvað varðar ferðaþjónustuna og þessa ótrúlegu lýsingu á skrímslinu sem komi að húsi fólks þá er þetta að segja: Þessar ákvarðanir voru kynntar í haust. Þremur mánuðum síðar, nú í nóvember, voru 61% fleiri ferðamenn til Íslands en í nóvember í fyrra. Í dag tóku Flugleiðir ákvörðun um fjárfestingu sem nemur sennilega yfir 10% af landsframleiðslu, stærstu einstöku fjárfestingu í sögu ferðaþjónustu á Íslandi. Ekki getur stjórnarstefnan verið alhræðileg gagnvart ferðaþjónustunni fyrst að svona vel gengur áfram og fyrst að menn ráðast í svona stórar og miklar ákvarðanir um fjárfestingu. Og finnst hv. þingmanni það sem sagt vera algjör ósvinna að láta ferðaþjónustuna greiða sama virðisaukaskatt og hún gerði í stjórnartíð (Forseti hringir.) Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks frá 1995–2007 þegar miklu verr gekk í greininni? Eða var ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks (Forseti hringir.) í 12 ár að skattpína ferðaþjónustuna óhóflega með þeim 14% virðisaukaskatti (Forseti hringir.) sem hún var látin greiða?