141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[16:59]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þarna séum við með mjög góð dæmi um það hversu miklu skattaívilnanir og skynsemi í skattheimtu fá áorkað. Við höfum séð að með þessari endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna byggingar á íbúðar- og frístundahúsnæði hafa orðið til mörg kærkomin verkefni í þeirri atvinnuleysistíð sem hér er. Ríkisstjórnin sér ástæðu til að endurtaka leikinn og ég fagna því.

Ég veit aftur dæmi þess að félagasamtök sem hafa verið að byggja yfir starfsemi sína hafa ekki notið þessarar ívilnunar. Þess vegna minntist ég á það hér áðan og ég held að við ættum að koma því í gegn að þetta verði skoðað milli 2. og 3. umr. Þetta er hvati til atvinnustarfsemi og dregur líka úr svartri atvinnustarfsemi. Við höfum horft á það, sem ég kom nú ekki inn á áðan, að þessar ítrekuðu skattahækkanir og álögur á fyrirtæki og almenning í landinu auka svo mjög á svarta atvinnustarfsemi að það er orðið sérstakt vandamál. Það er viðurkennt af aðilum vinnumarkaðarins og opinberum aðilum að hér er orðið til vandamál sem þarf að bregðast við með sérstökum hætti.

Það er enn ein birtingarmyndin í þessu máli að við þurfum að auka útgjöldin í eftirliti og skattheimtu vegna skattstefnu ríkisstjórnarinnar. Það er mjög áhugavert það sem hefur verið gert varðandi kvikmyndaiðnaðinn og er alveg ljóst að það hefur skilað sér í miklum tækifærum, mikilli atvinnusköpun og verðmætasköpun í þessari grein. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að það er mikið sem verður eftir í landinu vegna þeirrar starfsemi. Þess vegna meðal annars taldi ég (Forseti hringir.) algjöran óþarfa, eins og kom fram í fjárlagafrumvarpinu, að vera að setja 470 millj. kr. aukalega inn í Kvikmyndasjóð, inn í (Forseti hringir.) grein sem þegar er á fullri ferð og getur (Forseti hringir.) lítið bætt við sig verkefnum ef fjárfesta þarf í tækjabúnaði til (Forseti hringir.) viðbótar við það sem er.