141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[17:02]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á þeirri mínútu sem ég hef til umráða hef ég takmarkaðan tíma til að fara í útskýringar á því sem mig langaði að ræða áfram við hv. þingmann. Mig langaði að ræða aðeins þá staðreynd sem hv. þingmaður kom inn á um ferðaþjónustuna og fyrirhugaða skattlagningu sem kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Þetta var nánast birt í fjölmiðlum, ekkert samráð haft við nokkurn mann. Þetta hefur haft gríðarlegan eyðileggingarmátt nú þegar í greininni. Vissulega hafa ferðamenn haldið áfram að koma til landsins, þeir hafa sjálfsagt pantað ferðirnar fyrir einhverjum mánuðum.

Ég vildi gjarnan heyra skoðun hv. þingmanns á því hvort ekki gildi nákvæmlega það sama um ferðaþjónustuna. Við ræddum áðan um ívilnanir hvað varðar niðurfellingu virðisaukans og kvikmyndaiðnaðinn. Við erum að keppa á alþjóðlegum markaði og ef við setjum upp háar girðingar fyrir fólk sem er að velja sér ferð til landsins — að þá sé mjög hár skattur — er það hindrun og kemur (Forseti hringir.) í veg fyrir að fólk komi hingað. Það er aftur á móti frumforsenda þess að nægileg nýting verði á þeirri atvinnustarfsemi (Forseti hringir.) og þeirri uppbyggingu sem þegar hefur orðið í greininni og er grundvöllur áframhaldandi vaxtar.