141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[17:09]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður nefndi skýrslu sem var unnin fyrir Íslandsstofu sem bendir til þess að pólitísk áhætta sé vaxandi vandamál á Íslandi. Til er stofnun sem ég man því miður ekki hvað heitir sem heldur utan um pólitíska áhættu í heiminum og í nýjasta matinu sá hún ástæðu til að færa Ísland í flokk með fjölmörgum Afríkuríkjum, Rússlandi og Suður-Ameríkulöndum þar sem pólitísk áhætta væri sérstakt áhyggjuefni fyrir fjárfesta. Svo alvarlegt er ástandið orðið.

Menn hafa nefnt þau tíðindi að Flugleiðir hyggist kaupa nýjar flugvélar fyrir allt að 150 milljarða kr. En hvenær ætla menn að taka við þessum flugvélum? Það er verið að leggja inn pöntun en menn ætla að taka við flugvélunum í fyrsta lagi 2017, sem sagt ekki eftir næstu kosningar heldur þarnæstu kosningar. Þar gera menn áætlanir til langs tíma og eru ekki að miða við aðgerðir þessarar ríkisstjórnar heldur vonast til þess að ný ríkisstjórn og þarnæsta ríkisstjórn verði (Forseti hringir.) skárri.