141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[17:11]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt þetta sem er svo mikilvægt þegar við fjöllum um stöðugleika gagnvart atvinnulífinu til uppbyggingar og hvata hjá atvinnurekendum til að fjárfesta og halda áfram. Þá skiptir þessi stöðugleiki svo miklu máli. Ég kom inn á það áðan að hann var til staðar, hann var kannski forskot Íslands á margar aðrar þjóðir þegar fyrirtæki voru að velja sér starfsstöð. Forskot Íslands lá einmitt í því að það var hægt að treysta stjórnvöldum og hér var stöðugleiki á vinnumarkaði og í hinu pólitíska umhverfi.

Það mun eflaust taka okkur mörg ár að vinna þetta upp aftur. Ég vona bara að þjóðinni auðnist við næstu kosningar að eignast nýja ríkisstjórn með nýjar áherslur vegna þess að það er ekkert mikilvægara en að við náum að byggja þannig upp traust aftur með nýjum aðilum og nýrri stefnu. (Forseti hringir.) Það er ekkert mikilvægara fyrir þessa þjóð.