141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[17:27]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður gerði kolefnisgjaldið sem hefur verið lagt á innanlandsflugið í landinu að umtalsefni. Við munum að ákveðið var að setja gjaldið á og þegar menn fóru að skoða það kom í ljós, eins og hv. þingmaður rakti, að ekki gekk að setja kolefnisgjald á millilandaflugið. Það hefði einfaldlega þýtt að okkar millilandaflug hefði verið í mjög ósanngjarnri samkeppni við millilandaflug annarra landa og þar með hefði fljótlega komið að því að mjög hefði hallað á íslensk flugfélög.

Gjaldið hefur hins vegar verið lagt á innanlandsflugið alveg frá árinu 2010 sem hefur á sama tíma barist í bökkum. Há gjöld á innanlandsflugið á undanförnum árum hefur gert það að verkum að reksturinn hefur verið mjög þungur. Flugfargjöld hafa hækkað mjög þannig að það hefur verið eins konar skattur sem hefur bitnað sérstaklega á farþegum innanlandsflugsins og ekki síst atvinnulífi og einstaklingum á landsbyggðinni. Þess vegna er út af fyrir sig fagnaðarefni að nú skuli hafa vera horfið frá þeirri skattheimtu. Það er þó dálítið sérkennilegt að á sama tíma og það er gert er einmitt þessa dagana verið að kynna aðrar gríðarlegar hækkanir á innanlandsflugið, leiðafluggjöld, farþegagjöld o.s.frv., sem mun gera miklu meira en éta upp þann ávinning sem innanlandsflugið fær af lækkunum á kolefnisgjaldinu.

Síðan er annað sem hv. þingmaður nefndi og það voru losunarheimildir. Auðvitað er rétt að það var gríðarlega verðmætt fyrir okkur að fá þá viðurkenningu á sínum tíma í Kyoto-samkomulaginu en ég vil vekja athygli á einu og það er í frumvarpinu um stjórnarskrána. Þar er gert ráð fyrir því varðandi allar auðlindir, þar með talið auðvitað loftið, að fullt gjald skuli koma fyrir við þá notkun. Það mun væntanlega þýða að fyrir þær heimildir sem við höfum núna til að úthluta mengunarkvótum eða losunarheimildum verður að rukka fullt gjald. Það mun hins vegar ekki eiga við um aðrar þjóðir þannig að okkar fyrirtæki sem keppa á þeim grundvelli munu aftur lenda í ósanngjarnri samkeppnisstöðu.