141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[17:32]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður var að segja, losunarheimildirnar hafa algjörlega á sér sama yfirbragð og kvótakerfið okkar. Það var gert ráð fyrir því, eins og við munum, að fyrsta hluta losunarheimildanna væri úthlutað á grundvelli eins konar reynslu. Alveg eins og gert var í fiskveiðistjórnarkerfinu þar sem úthlutað var á grundvelli veiðireynslu. Það hefur verið kallað gjafakvótakerfið af ýmsum þingmönnum. Við getum sagt að við höfum tekið upp gjafakvótakerfi varðandi losunarheimildirnar og hverjir höfðu forustu um það? Það var flokkur sem heitir Samfylkingin.

Síðan er gert ráð fyrir því í framhaldinu að þegar búið er að gefa út þá kvóta eða uppfylla þá, verði menn eftir það að fara að kaupa og selja. Ef þeir þurfa viðbótarheimildir þurfa þeir að kaupa þær og geta síðan látið þær ganga kaupum og sölum, kerfið er framseljanlegt. Út af fyrir sig er það sennilega ekkert óskynsamlegt kerfi ef menn ætla á annað borð að hafa slíkt fyrirkomulag.

Það sem er hins vegar athyglisvert í þessari umræðu hjá okkur er það sem ég kom aðeins inn á í blálokin á ræðu minni. Nú erum við með frumvarp til nýrra stjórnarskipunarlaga, nýja stjórnarskrá. Í frumvarpinu er kveðið á um að fullt gjald skuli koma fyrir öll slík verðmæti sem ríkið á í því tilviki, þ.e. viðkomandi ríki sem hefur þær losunarheimildir, það kemur fullt gjald fyrir þær allar. Ef það verður samþykkt í okkar stjórnarskrá er ljóst mál að við Íslendingar verðum að rukka fyrir þær heimildir að fullu. Aðrar þjóðir munu ekki gera það því þær hafa ekki slíkt ákvæði, hvorki í sínum stjórnarskrám né í sínum lögum, og telja náttúrlega fráleitt að gera það vegna þess að það mundi íþyngja atvinnurekstrinum. Ef það verður niðurstaðan í stjórnarskipunarlögunum munum við sigla inn í þann veruleika að vera með fyrirkomulag sem neyðir okkur til að rukka að fullu fyrir heimildirnar á meðan aðrar þjóðir þurfa ekki að gera það. Síðan kemur hitt til viðbótar, sem hv. þingmaður nefndi, að öll ríki Evrópusambandsins standa nú fyrir utan kerfið og eru ekki bundin af því, þar á meðal Kanada og Bandaríkin sem við erum í samkeppni við.