141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[17:34]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir andsvarið. Ég hef tekið þá stefnu í þinginu eftir að þetta stjórnlagaráðsfrumvarp kom fram að ræða ekki mikið efnisinnihald þess af því að þar er svo margt sem þarf að breyta. Ég veit ekki hvort tími vinnst til að gera það en vil samt ítreka að það er stefna Framsóknarflokksins að auðlindaákvæði komi einhvern veginn inn í stjórnarskrána. Vissulega er nefnt þar að það þurfi að koma fullt gjald fyrir og þá náttúrlega gerist það sem þingmaðurinn fór yfir, selja þarf þeim aðilum þetta.

Losunarheimildakerfið byrjaði akkúrat eins og íslenska kvótakerfið, eins og ég fór yfir. Því var fyrst úthlutað samkvæmt hinni svokölluðu mengunarreynslu og svo geta fyrirtæki sem fengu úthlutanir sýnt fram á sparnað og að þau losi minna og þannig smám saman eignast losunarheimildir og selt þær á þeim virkum markaði með losunarheimildir. Það er ágætt því það á að vera hvatning til að menga minna.

Ég vil minna á að íslenska ríkið hefur ekki lagt sig eftir því að kaupa kvóta því það fór náttúrlega svo að sá kvóti var á sínum tíma afhentur til Evrópusambandsins í stað þess að ríkið gæti átt hann og jafnvel selt eða leigt. Það var til dæmis Eystrasaltsríki sem seldi losunarheimildir sínar því í ljós kom að það þurfti ekki allan þann kvóta sem því hafði verið úthlutað og hagvöxtur jókst í ríkinu um 1% Þarna er verið að tala um heilmiklar fjárhæðir. Hættan varðandi losunarkerfið er að það visni innan frá því það voru væntingar um að hver losunarheimild mundi kosta 35–60 evrur til framtíðar en hún er föst í 5–6 evrum svo kerfið er nú þegar að verða gjaldþrota.