141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[18:01]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að spyrja hv. þingmann um kvikmyndir núna heldur ætla ég að spyrja hann um það sem tengist fjáröflunarfrumvarpinu, þ.e. hér er verið að afla fjár í ýmis verkefni sem við ræddum og afgreiddum í rauninni í dag til nefndar fyrir 3. umr. Þar voru meðal annars alls konar sjóðir settir upp og eru núllmerktir í upphafi, þ.e. útflutningssjóður, myndlistasjóður, hönnunarsjóður, handverkssjóður, bókmenntasjóður og eitthvað fleira.

Mig langar svolítið að heyra í hv. þingmanni um ástæðuna fyrir því að við erum með þetta svona í fjárlagafrumvarpinu sem við afgreiddum í dag og erum að finna peninga í tekjuöflunarfrumvarpinu til að fjármagna þetta. Er þetta ekki eitt af því sem hefur verið gagnrýnt að var inni á safnliðum en kemur svo núna sem einhvers konar nýtt verkefni frá framkvæmdarvaldinu, þó svo að búið sé að veita peninga í gegnum árin í verkefni sem mundu heyra undir þessa sjóði?

Mikið var gert úr því í dag að þetta væri stórkostlegt verkefni sem aldrei hafi átt sér stað í rauninni. Verið væri að ýta undir þessar greinar. Ég held að við séum öll sammála um að mikilvægt sé að menning og listir dafni vel en það er um leið grátlegt ef verið er að slá ryki í augu fólks, að halda því fram að hér sé eitthvað nýtt ef það er ekki þannig. Mér sýnist það vera þannig.

Síðan ætla ég aðeins að spyrja hv. þingmann út í heitavatnsskattinn í seinna andsvari.