141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[18:05]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla aðeins að halda áfram með þetta því að hv. þingmaður benti réttilega á að þegar verið væri að stórauka fé inn í þessa meintu nýju sjóði, sem eru að sjálfsögðu ekki nýir því að fjármunir hafa verið veittir af safnliðum í verkefni sem munu heyra þar undir í það minnsta, þá er ekki króna sett í menningarsamningana, sem var „presenterað“ og túlkað sem eitthvað sem átti að bjarga menningu og listum á landsbyggðinni. Þess vegna finnst manni svolítið skrýtið að fara fram með þessum hætti. Ég segi, þetta er í rauninni blekking sem verið er að leika sér með, þessar tölur allar.

Varðandi umhverfis- og auðlindaskattana í frumvarpinu þá er verið að framlengja lög sem áttu að vera tímabundin, ef ég kann þetta rétt, lög nr. 129/2009. Því hljótum við að velta fyrir okkur hvort ekki megi kalla það vonbrigði að menn gangi að einhverju leyti á bak orða sinna með því að framlengja í sköttum sem áttu að vera tímabundnir. Reyndar kemur fram að orkuskatturinn svokallaði eigi að fara á þremur árum en ef ég man rétt átti hann að detta út núna á þessu ári. Það virðist því vera lenska að standa illa eða ekki við það sem sagt er.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvað áhrif hann telji að þau vinnubrögð kunni að hafa. Hitt er svo að sturtuskatturinn svokallaði, skatturinn á heita vatnið, er væntanlega kominn til að vera. Þá vaknar sú spurning: Ef honum verður ekki breytt verður það þá ekki freistandi fyrir stjórnvöld á hverjum tíma, í það minnsta ef vinstri stjórn verður hér áfram, að hækka þá skatta smám saman, fyrst þeim tókst að finna upp nýja? Það er áhyggjuefni hvernig haldið er á þessum málum.