141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[18:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Þegar andsvör voru sett á var það hluti af breytingum á þingsköpum meðal annars vegna þess að menn vildu losna úr þeim gríðarlega löngu ræðum sem vinstri flokkarnir í stjórnarandstöðu höfðu lagt stund á, menn höfðu náð tólf tíma ræðum, ef ég man rétt, en hv. þingmaður gerði svolítið úr umræðu um safnliði.

Það er nú einu sinni þannig að það frumvarp sem við ræðum, um að afla tekna í ríkissjóð, er til þess að afla tekna meðal annars fyrir þessa safnliði sem er verið að breyta nöfnum á og kalla einhverja sjóði. Það er því ósköp eðlilegt að vísað sé í fjárlagafrumvarpið vegna þessa.

Það er líka mjög eðlilegt að þingmenn spyrji hvern annan út úr orðum eða ræðum sem þeir hafa hér uppi í ræðustól og vilji fá nánari skýringar. Það kann að vera óheppilegt í huga hv. þingmanns að menn séu hugsanlega sammála um niðurstöðuna, en þannig er það nú bara. En ef hv. þingmaður vill fá almennileg andsvör þá skora ég á hann að koma hingað í ræðu og ég skal sjá um að veita honum andsvör.