141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[18:14]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég hef veitt andsvör undir umræðunni í dag hv. þingmanni til upplýsingar sem þá hefur ekki verið í salnum og skiptist á skoðunum við (ÞKG: Ég hlustaði á þau.) ræðumenn. Ég held að það skipti sannarlega máli að hafa andsvör, möguleikana á því að skiptast á skoðunum.

Það andsvaraleikrit sem var í gangi áðan til að tefja fyrir umræðunni lengra inn í kvöldið af hálfu stjórnarandstöðunnar var ekkert betra eða verra en það sem hefur verið áður og þetta hafa eflaust þingmenn úr öllum flokkum gert sig seka um. Ég hef gert mig sekan um það áður fyrr á árunum en það verður ekkert betra fyrir það. Ég held að við þurfum líka að ræða það að Alþingi Íslendinga er eitt af fáum þingum þar sem forsetar taka ekki á sig rögg og gera athugasemdir við það ef menn fara út fyrir það dagskrármálefni sem á dagskránni er. Hér leyfist mönnum að fara út um víðan völl. Ég held aftur að dæmið áðan hafi ekki verið neitt sérstaklega slæmt. Það er alveg hægt að hanga á því að fara megi í safnliðina. Ég hef ábyggilega farið með þeim hætti eins og þingmennirnir einhverju sinni. En ég held (Forseti hringir.) að löngu tímabært sé að við gerum meiri kröfur til umræðna og forsetar hafi einhverja skoðun á því með hvaða hætti ræðustóllinn (Forseti hringir.) sé nýttur, menn geti ekki bara talað um hvað sem er, hvenær sem er, hvernig sem er.