141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[18:15]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að lýsa því yfir að ég er ósammála hv. þm. Helga Hjörvar að þetta form, andsvör, sé ekki gagnlegt. Í andsvörum getur maður spurt betur út í ræðu hv. þingmanna, hægt er að leysa úr misskilningi, kafa dýpra í málin og kannski koma með nýjan flöt og varpa því fram til ræðumanns hvort það sé það sem hann eigi við. Andsvör þurfa ekki endilega að vera tveir þingmenn, mér liggur við að segja gargandi hvor á annan, alls ekki.

En svo er annað mál, hv. þm. Helgi Hjörvar gæti náttúrlega, ef honum er svona misboðið hvernig þessi fundarstjórn er öll sömul, reynt að semja við formann sinn um að komast að sem forseti Alþingis.