141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[18:34]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Virðulegur forseti. Þó að menn geti flestir verið sammála um að einhverjar skattahækkanir hafi verið óhjákvæmilegar eftir árið 2008 eru hækkanirnar sem slíkar ekki aðalvandamálið, alla vega ekki til að byrja með. Þær eru reyndar orðnar þvílíkar eftir þessi fjögur ár að upphæð skattanna er orðin sjálfstætt vandamál. Það sem er enn þá stærra vandamál og búið að vera á þessu kjörtímabili og verður enn um sinn er sú óvissa sem hefur skapast vegna þess hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á skattamálum. Það mun örugglega taka einhvern tíma að fá fólk til að treysta stjórnvöldum á Íslandi aftur og trúa því að það sem stjórnvöld segja muni þau standa við, a.m.k. til skamms tíma. Við höfum hvað eftir annað séð ríkisstjórnina hringla í skattkerfinu, gera breytingar, yfirleitt fyrst og fremst til að flækja skattkerfið og hækka skatta með litlum fyrirvara án samráðs og jafnvel þegar samráð hefur verið haft og sérstakir samningar gerðir og undirritaðir þá hafa þeir verið sviknir. Allt hefur þetta bætt á þá pólitísku óvissu sem menn hafa rætt í tengslum við þessi fjárlög og er orðin eitt helsta efnahagsvandamál Íslands. Sú viðvarandi pólitíska áhætta sem fylgir því að fjárfesta hér er síst til þess fallin að auka fjárfestingu enda hefur dregið talsvert úr henni.

Þá að sköttunum sjálfum. Við horfum enn og aftur fram á áframhaldandi hækkanir sem eru til þess fallnar að skapa öfuga hvata í hagkerfinu og draga jafnvel úr tekjum ríkisins til lengri og skemmri tíma í stað þess að auka þær. Það dæmi sem hefur mest verið rætt um og ekki að ástæðulausu er fyrirhuguð skattlagning á ferðaþjónustu. Annars vegar stóð til að hækka skatt á gistingu upp í 25,5% sem hefði þýtt að Ísland næði heimsmeti í skattlagningu á hótel og aðra gististaði. Aðeins hefur verið dregið úr þeim áformum eins og ég kem inn á á eftir. Hins vegar eru áform um hækkun vörugjalda á bílaleigur. Menn gátu sýnt fram á það með tiltölulega einföldum og varfærnum áætlunum að ef orðið hefði af hækkun upp í 25,5% á gistingu hefði dregið mjög hratt úr tekjum ríkisins í stað þess að auka þær — með varfærnum áætlunum um hvaða áhrif þetta hefði haft á fjölda erlendra ferðamanna á Íslandi, enda er ferðaþjónustan í samkeppni við flest önnur lönd í heiminum, en auðvitað í sérstakri samkeppni við löndin í kringum okkur.

Eðli ferðaþjónustunnar er þannig að menn geta borið saman ólíka kosti í tölvunni heima hjá sér og ekki bara borið saman álíka staðsetningu heldur ólík hótel um allan heim á einni og sömu vefsíðunni. Þá skiptir miklu máli hvar samkeppnishæfustu verðin er að finna. Íslensk ferðaþjónusta var loksins orðin samkeppnishæf vegna þess að gjaldmiðillinn hafði fallið það mikið að það skapaði svigrúm fyrir fólk sem áður hefði ekki talið borga sig að ferðast til Íslands, það skapaði svigrúm til þess að fólk hugleiddi það í alvöru og mjög margir hafa látið verða af því eins og við sjáum á tölum um ferðamannafjölda. Ef menn hefðu hins vegar hækkað þennan skatt þannig að Ísland væri með hæsta skatt í heimi á gistingu hljóta flestir að sjá að það hefði haft veruleg áhrif á hversu margir hefðu ákveðið að panta sér ferð til Íslands eftir að hafa legið yfir ólíkum kostum á netinu eða með hjálp ferðaskrifstofa. Það hefði því mjög fljótlega skaðað samfélagið allt efnahagslega og meðal annars dregið úr tekjum ríkissjóðs.

Það sama á við um bílaleigurnar. Þær hafa verið að rétta úr kútnum, getum við sagt, síðustu missirin og haft tækifæri til þess að byggja upp þjónustuna, jafnvel þótt þær hafi mætt aukinni samkeppni frá nýjum bílaleigum og jafnvel starfsemi sem ekki greiðir virðisaukaskatt sem virðist vera talsvert um á þessu sviði. Engu að síður hafði mönnum tekist að byggja upp töluverðan bílaflota til að mæta þessari fjölgun ferðamanna og gera þeim kleift að komast vítt og breitt um Ísland sem er auðvitað algjörlega nauðsynlegt til að halda uppi stórum hluta ferðaþjónustunnar, bændagistingunni, minni gistiheimilum úti á landi, hótelum úti á landi, vegna þess að gistihúsin og bændagistingin geta ekki reitt sig á hópferðir heldur þurfa að treysta á að ferðamenn komi sér sjálfir á staðinn með bílaleigubílum. Með áformaðri hækkun vörugjalda er alveg ljóst að bílaleigurnar þyrftu að draga verulega úr kaupum á bílum. Þær gætu í rauninni ekki átt það stóran bílaflota að þær önnuðu eftirspurn yfir sumarmánuðina. Óhagræði sem hlytist af því fyrir ferðaþjónustu á landinu öllu yrði svo mikið að það mundi éta mjög fljótt upp þær tekjur sem ríkisstjórnin hafði hugsað sér að ná út úr þessum hækkunum.

Eftir mikla gagnrýni ákvað ríkisstjórnin, eða hæstv. fjármálaráðherra, að bregðast við með því að leggja til að skattur á gistingu hækkaði í 14% í stað 25,5%, þ.e. ætlaði að láta sér nægja að tvöfalda skattinn. Þetta er reyndar nokkuð sem við höfum séð dálítið oft áður hjá þessari ríkisstjórn. Hún byrjar á því að spila út áformum um gríðarlegar hækkanir, en eftir heilmikla umræðu og gagnrýni er látið eins og hún hafi tekið sönsum og ætli að fara milliveginn og draga úr áformum um hækkanir. Ég held reyndar að flestir séu farnir að sjá í gegnum þetta. Maður heyrði það töluvert í umræðunni, eftir að hafa rætt við fjölmarga sem starfa í ferðaþjónustunni, að margir gerðu eiginlega ráð fyrir því að það hlyti að vera planið hjá ríkisstjórninni að byrja á því að leggja á eitthvað sem væri svo fjarstæðukennt að það mundi setja allt í uppnám, en koma svo nokkrum vikum eða mánuðum seinna og segjast ætla að draga í land og hafa hækkunina hófsamari. Við fengum að heyra það mjög skýrt, við þingmenn sem höfðum fyrir því að kynna okkur afstöðu ferðaþjónustunnar, að menn skyldu vera á varðbergi gagnvart slíku enda tvöföldun á skattinum umtalsverð hækkun svo að ekki sé meira sagt og til þess fallin að skekkja samkeppnisstöðuna út á við.

Það eitt að hafa leikið þann leik að byrja á því að spila út þessari hækkun, þ.e. að til stæði að hækka virðisaukaskatt á gistingu upp í 25,5%, hefur þegar valdið umtalsverðum efnahagslegum skaða. Á því tímabili sem liðið er frá því að ríkisstjórnin kynnti þessi áform og þar til nú, þegar dregið hefur verið í land, hafa fyrirtæki í ferðaþjónustu tekið ákvarðanir um verðlagningu, ekki bara fyrir næsta ár heldur líka þarnæsta ár. Flestar stóru kaupstefnurnar í greininni, þar sem fulltrúar frá ferðaskrifstofum eða vefsíðum sem selja ferðir hafa hist til þess að bera saman bækur sínar, hafa verið haldnar á þessu tímabili og menn hafa því tekið ákvarðanir út frá því að þessi hækkun mundi verða. Það liggur fyrir að margir hafa fallið frá áformum um ferðir til Íslands. Því til viðbótar hafa áform um uppbyggingu í ferðaþjónustu innan lands verið sett í bið eða slegin af, jafnvel stór verkefni eins og nýtt hótel á Sauðárkróki og víðar. Þetta hefur því þegar valdið umtalsverðum skaða, hver svo sem niðurstaðan verður á endanum.

Þessi ríkisstjórn virðist ekki skilja að yfirlýsingar og áform sem koma frá stjórnvöldum eða viðvarandi óvissa veldur skaða. Óvissan veldur efnahagslegu tjóni og hefur gert það á undanförnum árum. Þetta er bara nýjasta dæmið um það. Við sjáum síðan á þingmönnum stjórnarliðsins að þeir virðast ekki gera sér grein fyrir þessum áhrifum eða því að aðrir en ríkisstjórnin gera yfirleitt áætlanir til langs tíma. Við heyrðum til dæmis þegar hv. þm. Helgi Hjörvar kom hingað upp áðan að hann skildi ekkert í því hvað menn væru að skammast yfir þessum skattahækkunum á ferðaþjónustuna enda sýndu nýjustu tölur fyrir nóvembermánuð að ferðamönnum hefði fjölgað til mikilla muna. En hvers vegna var það? Það er vegna þess að þeir höfðu tekið ákvörðun um að koma hingað út frá þeim verðum sem þá voru, og voru ákveðin á árinu 2010 eða 2011, og voru löngu búnir að gera ráðstafanir og ákveða að koma hingað, enda er ekki búið að leggja skattinn á. Það að halda því fram að fjöldi ferðamanna í nóvember segi eitthvað um áhrifin af þessari skattlagningu gefur til kynna að menn geri sér ekki alveg grein fyrir samspili tíma og ákvarðanatöku. Ef menn ætla hins vegar að viðhalda þeim vexti sem hefur verið í ferðaþjónustunni verður hún að vera samkeppnishæf á við útlönd.

Svo nefna menn að Flugleiðir ætli að kaupa nýjar þotur fyrir allt að 150 milljarða kr. Þá gleyma menn því líka að utan ríkisstjórnarinnar hugsa menn fram í tímann og gera langtímaáætlanir. Þó að Flugleiðir geri samning núna um að panta flugvélar munu flugfélagið ekki taka við þeim fyrr en í fyrsta lagi 2017, sem sagt ekki eftir næstu kosningar heldur þarnæstu. Það er skiljanlegt að menn þar á bæ geri ráð fyrir því að einhverjar breytingar verði á stjórn landsins eftir tvennar kosningar að minnsta kosti.

Því miður sjáum við fjölmörg önnur dæmi um vanhugsaðar skattahækkanir og skattkerfisbreytingar í þessum nýjustu fjárlögum, en mér mun ekki vinnast tími núna til að fara yfir mikið meira en það er varðar ferðaþjónustuna í þessari fyrstu ræðu. Ég vil þó nota tækifærið til að nefna eitt atriði hér í lokin vegna þess að það sýnir — það er ekki hægt að kalla það annað en ósvífni núverandi ríkisstjórnar. Það er framganga stjórnarinnar varðandi skatt á raforku, raforkuskattinn, þar sem búið var að gera samkomulag við fyrirtæki sem góðfúslega tóku þátt í því að fjármagna framkvæmdir eða útgjöld ríkisstjórnarinnar, jafnvel með því að greiða skatta fyrir fram til nokkurra ára eins og sum stóriðjufyrirtækin gerðu samkvæmt samningi um að það yrði bara til ákveðins tíma. Svo kemur hæstv. forsætisráðherra, eftir að hafa framlengt þessa skattlagningu, og segir að víst hefði verið staðið við samkomulagið, samkomulagið hefði verið að hafa þetta bara til ákveðins tíma en nú sé sá tími liðinn og þá sé hægt að setja skattinn á aftur. Þessir útúrsnúningar eru náttúrlega svo ósvífnir og grófir að þeir eru til þess fallnir að hræða hvern þann sem hefur verið að velta fyrir sér að fjárfesta í atvinnuuppbyggingu á Íslandi frá því. Vonandi verður skaðinn ekki langvarandi, vonandi tekst nýrri ríkisstjórn fljótt að sýna fram á að hún haldi loforð og samninga (Forseti hringir.) betur en sú sem ég vona að fari frá næsta vor.