141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[19:47]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar og vil taka undir með hv. þingmanni þegar hún kemur inn á þau áhrif sem þessi skattbreyting hefur á ferðaþjónustu í landinu. Þennan vaxtarbrodd, þessa grænu atvinnugrein sem er að byrja að ná fótfestu allt í kringum landið. Við sjáum að uppbyggingaráform víða um land eru sett í uppnám með þessari aðgerð.

Hv. þingmaður sagði að um verulegar skattahækkanir væri að ræða og þrátt fyrir þessa lækkun eða breytingar núna þá erum við enn með miklu hærri skatta á ferðaþjónustuna en gengur og gerist. Við höfum séð að það gætir mikils skilningsleysis þegar kemur að atvinnulífi í landinu og margir hafa talað um að við séum orðin ósamkeppnishæf þegar kemur að allri umgjörð í kringum atvinnulífið.

Ég er hérna með nýja skýrslu sem heitir The Global Competitiveness Report sem Nýsköpunarmiðstöð Íslands tók þátt í fyrir hönd Íslands. Það er fjöldi landa sem kemur að skýrslunni sem er gefin út af World Economic Forum. Þar kemur fram að þegar kannað er hvaða áhrif skattkerfi okkar hefur á vilja til atvinnuuppbyggingar og fjárfestinga er Ísland í 119. sæti.

Þar erum við að vísu fyrir ofan lönd eins og Malaví, El Salvador, Benín, Litháen og Jemen en það er fjöldi landa fyrir ofan okkur Íslendinga í samkeppnishæfni. Ég nefni þar ríki eins og Venesúela, Ekvador, Kólumbíu og Haítí, sem er í 118. sæti. Er ekki mikið áhyggjuefni fyrir þjóðina (Forseti hringir.) að við skulum vera á þessari braut og að skattkerfi okkar sé orðið þannig að það er orðið betra að reka fyrirtæki á Haítí heldur en á Íslandi?