141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[19:54]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þessari spurningu er auðsvarað. Brýnustu verkefnin á næsta kjörtímabili verða að skapa verðmæti, að hefja sókn í verðmætasköpun með því að nýta þau tækifæri sem við höfum hér út um allt. Það gerist með skilaboðum frá stjórnvöldum um þau atriði sem við höfum verið að nefna og mér fannst afar athyglisvert að heyra atriðin fimm atriði þingmaðurinn nefndi sem draga Ísland niður.

Það er einmitt þetta sem þarf, að skapa rammann og sýna jákvætt viðhorf til þeirra sem eru tilbúnir til að koma með fjármagn inn í íslenskt atvinnulíf, til þess að hætta sínum fjármunum til að búa til störf. Síðan þarf að sjálfsögðu að forgangsraða í ríkisrekstrinum. Við þurfum að spyrja okkur: Hvaða verkefnum þurfum við að sinna? Við forgangsröðum þeim fyrst, síðan koma önnur verkefni sem eru mikilvæg, gætu kannski beðið, en okkur langar mikið til.

Það gætu verið íþrótta- og æskulýðsmál eða önnur slík mál sem við þurfum ekki beinlínis að sinna en eru ofarlega í forgangsröðinni. Tökum þau. Síðan eru það verkefnin sem okkur langar rosalega að sinna. Mér dettur það í hug þegar ég sé hv. þm. Skúla Helgason, okkur langar rosalega til þess að setja 500 millj. kr. í að búa til sjóð um græna atvinnustarfsemi. Hver getur haft eitthvað á móti því að skapa græna umgjörð utan um atvinnulífið? Við höfum bara annað við peningana að gera akkúrat í augnablikinu og þess vegna eigum við að bíða með þá hluti sem við getum beðið með.

Það tekur nokkur ár að snúa þessari þróun við. Við þurfum að lækka skatta og við þurfum að einfalda skattkerfið. Ef það er eitt loforð sem ég mundi vilja gefa íslensku þjóðinni fyrir kosningar þá er það það að að loknu kjörtímabilinu muni ríkið taka minna og einstaklingarnir (Forseti hringir.) og heimilin í landinu munu halda meiru eftir.