141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[19:57]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er ekki viss um að ég og hv. þingmaður séum sammála um skattstefnu eða hvað eðlileg upphæð þegar kemur að skattlagningu sé, en eflaust erum við þó sammála um að þessi ríkisstjórn sé komin umfram það sem eðlilegt og hagkvæmt geti talist. En getum við ekki líka verið sammála um að oft og tíðum skiptir stöðugleiki og framtíðarsýn hvað varðar skattkerfið og skattlagningu jafnvel enn meira máli en upphæð skattanna?

Það sem ég á við með því er að eftir efnahagshrunið var skiljanlegt að einhverjir skattar væru hækkaðir, en hefði þá ekki verið mikilvægt strax í upphafi að útlista það hvernig menn sæju fyrir sér að skattkerfið kæmi til með að þróast? Jafnvel þótt menn hækkuðu skatta umtalsvert í byrjun, þá hefði átt að gefa frekar fyrirheit um að skattar kynnu að lækka ef árangur næðist og þá með hvaða hætti það mundi gerast í stað þess að viðhalda varanlegri óvissu.

Síðast þegar talning fór fram held ég að skattkerfisbreytingar þessarar ríkisstjórnar hafi verið komnar upp í 170. Nánast allar fólu þær í sér hækkanir eða auknar flækjur í skattkerfinu. Ég veit ekki hver talan verður eftir að fjárlögin verða afgreidd en það stefnir í að þessi ríkisstjórn muni vera búin að hræra í skattkerfinu 200 sinnum þegar hún lýkur störfum. Er sú óvissa sem það skapar ekki jafnvel enn skaðlegri en skattahækkanirnar sem slíkar? Svo ég einfaldi þetta; er ekki skárra að hækka skatta og skapa þá einhverja vissu um framhaldið og jafnvel von um lækkanir, en að vera stöðugt að hræra í kerfinu?