141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[20:06]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það gengur ekki að hæstv. fjármálaráðherra láti ekki sjá sig hér í þingsal. Ég kann alveg þetta klassíska svar, hæstv. fjármálaráðherra er í húsinu, en það bara dugar ekki. Við eigum orðastað við þann hæstv. ráðherra sem mælti fyrir þessu frumvarpi og hæstv. ráðherra á að vera hér í þingsalnum, ekki einhvers staðar annars staðar. Við höfum ekki hugmynd um hvort hæstv. ráðherra sé að hlusta á okkur. Það er einfaldlega verið að leggja fram spurningar til hæstv. ráðherra sem er flutningsmaður málsins og hæstv. ráðherra er ekki hér til að svara. Hæstv. ráðherra er að verða þögulasti fjármálaráðherra Íslandssögunnar, kemur hingað í fjárlagaumræðu og tekur ekki þátt í 2. umr., kemur ekki einu sinni í lok þeirrar umræðu eins og gjarnan er gert.

Síðan vil ég líka gera kröfu til þess að hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar, Helgi Hjörvar, sé í húsinu. Ég mun tala á eftir og ég þarf að spyrja hv. formann nefndarinnar ýmissa spurninga (Forseti hringir.) og það er gersamlega óþolandi að hv. þingmaður og hæstv. ráðherra, sem eru ábyrgðarmenn málsins hvor með sínum hætti, skuli ekki vera viðstaddir umræðuna í þingsal.