141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[20:09]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir þær kröfur sem hér hafa komið fram um að í það minnsta hæstv. fjármálaráðherra og hv. þingmaður muni mæta hingað — og ég vil bara vekja athygli á því hvað orð mín eru áhrifamikil. Um leið og ég missti þetta út úr mér var hæstv. ráðherra mætt á svæðið. Það er til mikillar fyrirmyndar og ég vil nota tækifærið og þakka hæstv. ráðherra fyrir að hlýða mér með þessum hætti og vona að hún hlusti vel á ræðu mína á eftir því það koma fleiri fyrirmæli sem ég vona að hæstv. fjármálaráðherra fari eftir.

En án alls gríns er það nýtt í þinginu og hófst með þessari ríkisstjórn að hæstv. ráðherrar, hv. stjórnarþingmenn og formenn nefnda taka ekki þátt í umræðu. Þetta var ekki svona, virðulegi forseti. Það er nýbreytni sem fylgdi nýrri ríkisstjórn, þessari vinstri stjórn. Þetta er fyrir neðan allar hellur og slæmur siður.