141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[20:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Að halda því fram að ráðherrar eða formenn nefnda taki ekki þátt í umræðum eins og þessari er alrangt. Ef hv. þingmaður hefði verið hér allan tímann í gær hefði hann vitað að fyrir utan að ég var náttúrlega með framsögu þá svaraði ég fjórum aðilum sem fóru í andsvör við mig. Ég tók því aldeilis þátt í því að leiða inn umræðuna og hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar Helgi Hjörvar tók aldeilis þátt í umræðunni með ræðu og andsvörum í gær og í dag.

Hv. þingmaður og varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar, Lilja Rafney Magnúsdóttir, tók líka þátt í umræðunni í gær með ræðu. Það er því ósanngjarnt að halda þessu fram, hæstv. forseti, og ég vona að þingmenn haldi sig við að vera sanngjarnir í umræðunni eins og þeir hafa verið hingað til.