141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[20:12]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Auðvitað verður hver að fljúga eins og hann er fiðraður til. En ég tel hins vegar að það sé algert grundvallaratriði að hæstv. ráðherra sé viðstaddur. Ég get alveg skilið að hæstv. ráðherra þurfi að bregða sér frá endrum og sinnum, ekki síst vegna anna í starfi, ég skil það mætavel. En það er mjög mikilvægt að hæstv. ráðherra taki þátt í umræðunni með andsvörum. Andsvörin eru ekki síst hugsuð til þess, m.a. í 1. umr., til að gefa ráðherra kost á því að svara einstökum spurningum, leiðrétta t.d. þingmenn ef þeir fara með rangt mál, og taka með öðrum hætti þátt í umræðunni.

Hæstv. ráðherra var ekki hér við upphaf þessarar umræðu. Ég gerði alvarlega athugasemd við það og ég finn líka að því að formaður efnahags- og viðskiptanefndar sé ekki hérna til að taka þátt í umræðum. Hann hefur verið hér reyndar endrum og sinnum, ég get vel viðurkennt það, en það er líka mjög mikilvægt að formaður efnahags- og viðskiptanefndar sé hér því að hann mun núna taka við málinu, hafa um það forustu. Við þurfum að leggja fram fyrirspurnir til hv. þingmanns til að hann geti tekist á við þær, velt fyrir sér þeim spurningum og brugðist við ef hann telur ástæðu til.