141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[20:14]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég fékk kynningu frá stórri endurskoðunarstofu hér á landi sem fór í gegnum skattalagabreytingar í þessum bandormi. Var það gert til að einfalda og kynna þetta fyrir þeim aðilum sem með þessi mál eiga að fara, þ.e. endurskoðendum og öðrum slíkum. Þó svo mann hafi sundlað yfir þeim breytingum sem verið hafa fram til þessa, svona með því að fara í gegnum frumvörpin, verður manni kannski fyrst um þegar maður sér sérfræðingana leggja þetta fram og reyna að einfalda þetta. Enn og aftur sjáum við gríðarlega mikið af breytingum. Ég get ekki farið yfir það allt saman í þessari stuttu ræðu en ég bið virðulegan forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá og mun ég þá fara yfir þessa þætti í kvöld, eitthvað af þeim. Því miður er ræðutíminn það stuttur — kannski vegna þess að menn hafi ekki haft hugmyndaflug í að sjá svona mál eins og hér er um að ræða, ég ætla ekki að leggja dóm á það. En ég ætla að taka eitt dæmi sem eru breytingarnar sem snúa að bílaleigum í ferðaþjónustunni.

Lagt er til að sá afsláttur sem bílaleigur hafa notað af vörugjöldum af innfluttum bifreiðum verði lækkaður um helming og þetta á að skila um 500 millj. kr. Svo segir:

„Breytingin, ef af verður, mun hafa þau áhrif að leiguverð bílaleigubíla mun þurfa að hækka um því sem næst 15% að meðaltali.“

Ég hef ekki orðið var við að leiguverð bílaleigubíla sé sérstaklega lágt um þessar mundir en það mun hækka um 15%. Kaupgeta á nýjum bílum mun minnka um nálægt 25% að öðru óbreyttu miðað við sama eiginfjárframlag. Kaupgeta á nýjum bílum mun minnka um nálægt 25%.

Við erum ekki að tala um að þetta hafi bara áhrif á ferðaþjónustuna — og ég vek athygli á því að ferðaþjónustan á Íslandi er í samkeppni við ferðaþjónustu í öðrum löndum. Bara hugmyndir hæstv. ríkisstjórnar um þessar skattahækkanir hafa nú þegar valdið skaða á Íslandi en aðrar þjóðir hafa hagnast á því. Ég velti því fyrir mér hvaða áhrif það hefur ef kaupgeta á nýjum bílum á Íslandi, ofan á áhrifin á ferðaþjónustuna, mun minnka um 25%. Ég býst við því að það muni hafa einhver áhrif á atvinnugrein eins og t.d. bílaumboðin. Það hefur líka áhrif á umhverfismálin. Nú kynni einhverjum að finnast þetta vera léttvægt en það er þannig að við erum með gamlan bílaflota hér á Íslandi í samanburði við önnur lönd. Ef við erum með gamlan bílaflota þá þýðir það að útblásturinn er mikill, mengunin er mikil og mun meiri en hún þyrfti að vera. Gríðarlegar breytingar hafa orðið á undanförnum árum varðandi eyðslu bifreiða og þetta hafa ekki verið breytingar, þetta hafa verið byltingar. Ef það er markmið núverandi ríkisstjórnar að hafa útblástur á bílum á Íslandi mikinn en ekki lítinn þá er þetta án nokkurs vafa skref í þá áttina.

Nú veit ég ekki hvort menn hafi velt þessu eitthvað fyrir sér, hæstv. ríkisstjórn. Ég hef ekki orðið var við það í umræðum. Það væri kannski ágætt að heyra frá hæstv. ráðherra eða formanni hv. efnahags- og viðskiptanefndar hvort menn hafi velt þessum þætti fyrir sér. Hér tala menn mjög fjálglega um mikilvægi umhverfismála, græns hagkerfis o.s.frv. Og það er alveg ljóst að ef menn ætla að gera það torsóttara og erfiðara en nú er — hefur það nú samt sem áður verið gert ansi torsótt, meðal annars með breytingu á gengi en einnig út af vörugjöldum og öðrum aðgerðum ríkisstjórnarinnar — og ef það er markmið að koma í veg fyrir innflutning á nýjum bílum þá held ég að menn ættu að segja það. Menn skyldu þá í það minnsta ekki vera að veifa því að þeir ætli að leggja mikla áherslu á umhverfismálin því að þetta er þvert á það. Ýmislegt fleira mætti nefna eins og umferðaröryggismálin og annað slíkt.