141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[20:20]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég óskaði eftir því hér áðan að hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar yrði viðstaddur þessa umræðu vegna þess að ég þyrfti að spyrja hann ákveðinna spurninga. Nú vil ég spyrja hæstv. forseta hvort það sé ekki öruggt að formaður nefndarinnar muni vera hér, sýna þá að minnsta kosti vilja til taka þátt í þessari umræðu og eftir föngum að hlusta á sjónarmið sem koma fram og svara þá spurningum ef hv. þingmaður telur ástæðu til. Má ég heyra hvort hv. formaður nefndarinnar sé væntanlegur?

(Forseti (KLM): Forseti hefur fengið þau skilaboð að formaður efnahags- og viðskiptanefndar sitji á skrifstofu sinni og hlusti á ræður þingmanna sem hér eru fluttar.)

Það er til bóta en ekki nógu gott vegna þess að ég tel að hv. þingmaður eigi að vera hér og taka þátt í þessari umræðu og bregðast við þeim athugasemdum sem koma fram.

Virðulegi forseti. Ég ætla að fara yfir nokkur efnisatriði í frumvarpinu. Ég ætla að taka það fram sérstaklega að hugmynd mín er ekki sú að ræða um bílaleigur eða ferðaþjónustu þó að full ástæða sé til vegna þess að það hefur verið það mikið um það rætt. Það eru önnur atriði sem mig langar til að víkja að sem skipta líka gríðarlega miklu máli.

Í fyrsta lagi kemur fram í frumvarpinu að verið er að framlengja, að ég hygg, ákvæði varðandi raforkuskatt og síðan er greint frá því að hugmyndin sé að hann falli niður eftir þrjú ár. Þetta kemur nokkuð á óvart vegna þess að í greinargerð með breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar, við afgreiðslu til 2. umr. nú á dögunum, þá kemur það fram að horft er til þessa raforkuskatts sem nú er aðeins verið að hækka á milli ára. Þar kemur fram að ætlunin sé síðan að nota þennan raforkuskatt smám saman til að standa straum af niðurgreiðslum á húshitunarkostnaði. Við hæstv. ráðherra höfum stundum rætt þetta mál og nú vil ég spyrja hann: Hver er sannleikurinn í málinu? Er það svo, eins og ég skil það í frumvarpinu, að gert sé ráð fyrir því að þessi raforkuskattur falli niður eftir þrjú ár eða er hér verið, eins og segir í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar — í 17. gr. frumvarpsins er talað um að þessi skattur verði hækkaður og síðan er talað um að þetta muni falla úr gildi. Ég vil bara spyrja hvort ætlunin sé að framlengja þennan skatt og hvort hugmyndin sé sú að þetta sé upphafið að því að nota hann til lækkunar á húshitunarkostnaði.

Í öðru lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra um eitt. Í 16. gr. kemur fram að verið er að fella niður það kolefnisgjald sem lagt var á innanlandsflug og hefur verið lagt á frá árinu 2010. Þetta var mjög umdeilt mál á sínum tíma, meðal annars vegna þess að þetta gjald var eingöngu lagt á innanlandsflug en ekki millilandaflug. Fyrir því voru færð þau rök að innanlandsflugið félli ekki undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins um losunarheimildir en hins vegar gerði millilandaflugið það og væri auk þess í samkeppni.

Þann 1. janúar sl. féll innanlandsflugið undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins um losunarheimildir. Þess vegna þurfa flugrekendur í byrjun næsta árs að standa skil á losunarheimildum með gróðurhúsalofttegundir vegna starfsemi sinnar. Í ljósi þess að nú er verið að fella kolefnisgjaldið niður á grundvelli þess að innanlandsflugið féll undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins um losunarheimildir vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hugmyndin sé sú að þetta gjald verði þá endurgreitt fyrir árið 2012. Þetta skiptir máli vegna þess að á þetta horfa meðal annars flugrekendur.

Við vitum að innanlandsflugið býr við mjög bág kjör. Hæstv. ríkisstjórn hefur gripið til þeirra úrræða að auka mjög gjaldtöku í innanlandsfluginu. Nú stendur fyrir dyrum mikil hækkun á þessari gjaldtöku í innanlandsfluginu sem mun valda því að tilkostnaður hækkar og rekstrarumhverfi greinarinnar versnar gríðarlega mikið. Það skiptir því miklu hvort ætlunin sé að endurgreiða þetta. Það kemur ekki fram í þessu en ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki komi til greina að gera þær breytingar, ef efni standa til, að endurgreiða þetta gjald fyrir árið 2012 sem er þá væntanlega í kringum 30 millj. kr.

Þriðja atriðið sem mig langar að koma inn á og hefur ekki verið rætt neitt en skiptir mjög miklu máli: Hér er gert ráð fyrir því ákvæði að framlengja þann tíma sem það gildir að ekki þurfi að greiða stimpilgjöld af tilteknum fjármálagjörningum, tilteknum breytingum á lánapappírum o.s.frv. Allt er þetta gott og blessað og skiptir máli og mun verða til þess að margir þeir sem hafa þurft að borga stimpilgjald fram að því að þetta ákvæði tók gildi losna við það.

Það hefur hins vegar verið einn mjög slæmur meinbugur á þessu máli sem ég hef áður tekið upp, meðal annars við formann efnahags- og viðskiptanefndar og þess vegna kallaði ég mjög eftir því að hv. formaður væri hér viðstaddur. Það er að hér er um það að ræða að þeir einir eiga rétt á að fá fellt niður stimpilgjald þegar þeir eru að endurfjármagna lánin sín sem borga upp að fullu það lán sem fyrir er á viðkomandi fasteign. Tökum nú dæmi.

Nú eru þúsundir Íslendinga búnir að breyta verðtryggðum lánum sínum í óverðtryggð, einfaldlega vegna þess að það er hagkvæmara. Það er einn galli á gjöf Njarðar. Hann er sá að bankarnir sem veita þessi óverðtryggðu lán gera mjög strangar veðkröfur. Þeir sem fá þessar skuldbreytingar verða þess vegna að eiga heilmikið eigið fé til að geta fengið skuldbreytingu hjá bankanum úr verðtryggðu í óverðtryggt lán.

Nú eru margir í þeirri stöðu að geta ekki endurfjármagnað af þessum ástæðum verðtryggða lánið sitt að fullu og tekið í staðinn óverðtryggt lán. Tökum dæmi af einstaklingi sem hefur haft 20 millj. kr. lán á íbúðinni sinni. Hann vill endurfjármagna það og færa það yfir í óverðtryggt lán, hefur ekki veðrými til þess nema að því marki að hann hefur veðrými til að taka 10 millj. kr. óverðtryggt lán. Þetta þýðir að hann fær ekki niðurfellt stimpilgjaldið af þessu 10 millj. kr. láni af því að það er talið nýtt lán þó að það sé eingöngu notað til að borga upp 20 millj. kr. hlutann að hálfu leyti. Hvaða fólk skyldi nú vera í þessari stöðu? Jú, það er fólk sem er í fyrsta lagi eignaminna. Það er þá væntanlega í mjög mörgum tilvikum örugglega líka fólk sem hefur lægri tekjur og þetta á alveg örugglega við um langflest ungt fólk. Hvað er þá verið að gera? Með veðkröfum bankanna er annars vegar verið að koma í veg fyrir að þetta unga fólk, meðal annarra, geti endurfjármagnað sig í óverðtryggðu og lækkað þannig fjárskuldbindingar sínar. Í öðru lagi er verið að leggja sérstakan skatt á þetta unga fólk í formi stimpilgjaldsins sem aðrir þurfa ekki að borga sem geta endurfjármagnað sig að fullu. En unga fólkið sem var í þeirri stöðu sem ég var að lýsa áðan — gæti fengið 10 millj. kr. endurfjármögnun með óverðtryggðu láni — þyrfti að borga fullt stimpilgjald 150 þús. kr. og ungt fólk munar um það. Til að geta reitt það fram þurfa viðkomandi að þéna 300 þús. kr. Ég vil því spyrja hæstv. fjármálaráðherra — er hæstv. fjármálaráðherra að hlusta? Ég var að spyrja hæstv. fjármálaráðherra að því hvort það komi til greina að gera þessar breytingar á lögunum og taka tillit til þessara sjónarmiða sem ég tel vera mikil sanngirnissjónarmið.

Eitt atriði enn vil ég ræða hér en það er sú skattlagning sem hefur farið fram gagnvart þjóðkirkjunni í landinu. Nú vitum við að þjóðkirkjan gegnir gríðarlega miklu hlutverki hér á landi og staða hennar hefur á margan hátt verið þröng í fjárhagslegu tilliti. Það sem hefur gerst á síðustu árum er að mjög harkalega hefur verið gengið fram í því að lækka tekjustofna sem kirkjan hefur haft. Í skýrslu sem innanríkisráðherra lét gera kemur fram að jafnvel þótt sóknargjaldatekjur þjóðkirkjusafnaðanna yrðu hækkaðar verulega léti nærri að skerðing á síðustu árum, sem hefði svo runnið í ríkissjóð, næmi um 2 milljörðum kr. af tekjustofnum safnaðanna vegna skerðingar umfram aðra. Með öðrum orðum: Skerðingarnar umfram aðra, sem hafa verið að lúta skerðingum vegna hagræðingar og aðhaldsaðgerða ríkisstjórnarinnar, nema hjá þjóðkirkjunni um 2 milljörðum kr. á þessu tímabili. Það er auðvitað gríðarlega há upphæð.

Við erum að tala um tvenns konar fjárveitingar til þjóðkirkjunnar. Í fyrsta lagi erum við að tala um fjárveitingar sem byggja á samkomulagi ríkisins og þjóðkirkjunnar frá 1997, um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar. Þær byggja á því að á sínum tíma var gert samkomulag, árið 1997, um að ríkissjóður fengi kirkjujarðirnar en í staðinn stæði ríkissjóður undir þessum greiðslum til presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar. Hins vegar er það þannig að þau sóknargjöld sem innheimt eru og menn greiða sem eru í þjóðkirkjunni eru greidd þannig að þau eru innheimt sem skattur af ríkinu. Þau eru hlutfall af tekjuskatti og greidd síðan til þjóðkirkjunnar. Þetta hefur hvort tveggja verið skert mjög mikið á síðustu árum sem er mjög ámælisvert vegna þess að um er að ræða 15–16 ára gamlan samning sem byggði á því að kirkjan afsalaði sér jörðunum og eignum sínum til ríkisins og ríkið í staðinn tæki að sér starfsmannagreiðslur eins og ég var að gera grein fyrir. Hins vegar er það þannig að litið hefur verið svo á að sóknargjöldin séu félagsgjald. Það er þannig að í nefnd hæstv. innanríkisráðherra er talað um þetta sem félagsgjald. Það er því býsna alvarlegur hlutur ef það félagsgjald er skert með einhliða hætti sem virðist hafa verið gert í þessum efnum og ef niðurskurður kirkjunnar er helmingi meiri en annarra þeirra stofnana sem heyra undir innanríkisráðuneytið. Bent hefur verið á það, meðal annars í skýrslunni sem gerð var fyrr á þessu ári, og gefin út í lok apríl 2012, að á árinu 2012 mundi að óbreyttu renna í ríkissjóð um 530 millj. kr. vegna skerðingar sóknargjalda, bara sóknargjaldanna, umfram meðaltalsskerðingu þeirra stofnana innanríkisráðuneytisins sem hljóta almennar verðbætur í fjárlögum.

Þetta er íhugunarefni og alvarlegur hlutur og hefur þegar haft mikil áhrif á starfsemi kirkna og sókna hringinn í kringum landið. Í þessari skýrslu er líka vísað í gögn frá Ríkisendurskoðun sem sýnir að 92 sóknir náðu ekki endum saman í rekstri sínum 2010 og hafði þeim sóknum sem þannig var komið fyrir fjölgað um 50% á þremur árum. Nú vitum við að á erfiðum tímum, eins og við höfum verið að lifa upp á síðkastið, er mjög mikil þörf fyrir þá starfsemi sem þjóðkirkjan stendur fyrir. Margir leita til kirkjunnar sinnar og trúarinnar við aðstæður sem þessar. Í ljósi þess og með skírskotun til þess vil ég segja að þetta er ekki góð aðferð vegna þess að nú reynir mjög á stoðir kirkjunnar og þjónustu hennar og starfsmanna hennar. Það má heldur aldrei gleymast að verið er að skerða tekjur kirkjunnar sem voru samningsbundnar frá árinu 1997 auk þess sem sóknargjaldatekjur þjóðkirkjusafnaðanna eru félagsgjöld til þjóðkirkjunnar.

Að lokum eitt atriði sem ég ætla þó ekki að gera mikið mál úr. Ég sé í frumvarpinu að gert er ráð fyrir því að hækka tóbaksgjöld. Út af fyrir sig ætla ég svo sem ekki að gera athugasemdir við það í mörgum orðum að öðru leyti en þessu: Ég hef skilið það á þann veg að hækkun tóbaksgjalda væri liður í einhvers konar lýðheilsustefnu. Með því að hækka gjöldin dragi úr notkun tóbaks. Það er gott og göfugt markmið. En ég sé hins vegar ekki betur en gert sé ráð fyrir því að umrædd hækkun tóbaksgjaldsins leiði ekki til minnkandi notkunar á tóbaki. Notkun reyktóbaks hefur sem betur fer dregist saman en neftóbaksnotkun hefur aukist nokkuð. Undirritaður á einhvern þátt í því. En ég sé ekki betur en gert sé ráð fyrir því að ríkissjóður hali inn milljarða við að fara þessa leið. Þá spyr ég hvort lagt hafi verið mat á það, á grundvelli verðteygni þessa, hvort þetta mun leiða til minni tóbaksnotkunar, sem væri þá út af fyrir sig ávinningur og væri þá einnar messu virði, eða hvort menn líti þannig á að tóbaksnotkunin verði stöðug og hækkunin muni þar með eingöngu skila auknum tekjum í ríkissjóð.