141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[20:41]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Út á það gengur frumvarpið að lagt sé 10 aura gjald á alla raforkuframleiðslu í landinu. Þær tekjur hækka framlagið til niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar um 600 millj. kr. eða þar um bil. Það er alveg rétt að ég styð það. Ég er talsmaður þess og er sammála niðurstöðu þessarar nefndar. Ég hef margoft látið það koma fram, gerði það þegar nefndin skilaði áliti sínu og kallaði eftir því hjá hæstv. fyrrverandi iðnaðarráðherra, sem var ekki hæstv. ráðherra Katrín Júlíusdóttir heldur Oddný Harðardóttir, hvort þess væri ekki að vænta að þetta kæmi fram, þannig að ég er talsmaður þess. Ég er hins vegar ekki sammála þeirri útfærslu sem er í núgildandi lögum þar sem gert er ráð fyrir því að þessi skattur sé einfaldlega bein tekjuöflun ríkissjóðs. Ég tel að þessi aðferð eigi að tryggja niðurgreiðslu til húshitunarkostnaðar.

Ég lít svo á að í svari hæstv. ráðherra varðandi fasteignaverðbréfin hafi hún í rauninni verið að hvetja til þess að þessi mál verði skoðuð og sömuleiðis hvað varðar spurningu mína um innanlandsflugið, ég spurði um þetta tvennt. Hæstv. ráðherra sagðist telja að þetta væru mál sem nefndin færi yfir og ég mun þá reyna að koma þeim skilaboðum til hv. formanns nefndarinnar ef hann hefur ekki hlýtt á orð mín.

Því miður fórst það fyrir hjá hæstv. ráðherra eða hún hafði ekki tíma til þess að svara því sem ég spurði um varðandi tóbaksskattinn sem á að gefa 1 milljarð kr. Það kemur ekki fram hvort hann muni hafa þau lýðheilsufræðilegu áhrif sem stundum er talað um til að réttlæta skattinn. Mig grunar að þetta sé tilraun til að hækka tekjur ríkisins og lýðheilsuspurningin sé til þess að krydda málið dálítið og gera það liðugra en að baki standi gamla áráttan að reyna að ná í meiri tekjur til ríkisins (Forseti hringir.) þó að hitt svona fljóti með til þess að slá ryki (Forseti hringir.) í augun á mönnum í umræðunni.