141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[20:43]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu. Það var reyndar fjölmargt í ræðunni sem ég vildi nefna við þingmanninn, en það sem vakti einna helst fyrir mér var að spyrja hv. þm. Einar K. Guðfinnsson út í ferðaþjónustuna og þau áhrif sem fyrirhuguð skattlagning hefur haft, sem skyndilega var látið vita af í sumar að yrði skellt á en síðan dregið úr eins og ríkisstjórnin hefur oft gert. Hvaða áhrif telur hv. þingmaður að fyrirhuguð skattlagning hafi á ferðaþjónustuna, ekki síst úti á landsbyggðinni, og þá í tengslum við bílaleigubreytinguna? Nú er líka búið að draga úr þeirri breytingu, það var svo sem bent á að eins og hún var lögð fram upphaflega hefði hún haft gríðarleg áhrif á innflutning á bílum þar sem helmingur innflutnings á bílum er og hefur verið vegna nýrra bílaleigubíla, sem má segja að sé óeðlilega mikið. Ég vildi sem sagt heyra álit hv. þingmanns á því hvaða áhrif þetta tvennt hefði, ekki síst á landsbyggðina. Margir hafa bent á að áhrifin þar verði miklu dýpri og alvarlegri en á ferðaþjónustuna í heild sinni og á höfuðborgarsvæðinu. Telur hv. þingmaður að þetta muni þar af leiðandi veikja enn frekar samkeppnisstöðu landsbyggðarinnar gagnvart höfuðborgarsvæðinu?

Ég ætla að geyma mér aðrar spurningar til seinna andsvars.