141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[20:50]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að í mörgum tilvikum eigum við að reyna að varast þessa eyrnamerktu skatta. Þeir geta átt rétt á sér í einstökum tilvikum, ég nefni í því sambandi húshitunarkostnaðinn og það er einfaldlega vegna þess að með einhverjum hætti þarf að tryggja að menn geti gengið að endurgreiðslum vísum. Ég vil því ekki útiloka eyrnamerkta skatta algjörlega.

Varðandi sóknargjöldin sem hv. þingmaður spurði mig um eru þau að mínu mati alls ekki eyrnamerktir skattar. Ég held að miklu skynsamlegra sé að nota orðið félagsgjöld eins og gert er í skýrslu hæstv. innanríkisráðherra. Hæstv. innanríkisráðherra lét gera skýrslu sem skilað var í lok apríl síðastliðnum þar sem talað er um að sóknargjöldin séu félagsgjöld. Þetta eru félagsgjöld til þeirrar kirkju sem viðkomandi tilheyra. Það sem er svo alvarlegt er að hluta af sóknargjöldunum er ekki skilað til sóknanna.

Ríkið nælir sér sem sagt í peninga sem voru upphaflega hugsaðir sem sóknargjöld og eins og hv. þingmaður nefndi vantar 2 milljarða upp á að þessum gjöldum hafi verið skilað, miðað við þær skerðingar sem sóknargjöldin hafa mátt sæta frá því að þær hófust á árinu 2010, eftir því sem ég best veit. Ef við horfum bara á yfirstandandi ár, 2012, vantar 530 millj. kr. upp á, sem er gríðarlegur peningur sem kirkjan er að missa. Það sem er svo háskalegt við þetta, eins og ég nefndi áðan, er að kirkjan gegnir svo stóru hlutverki á þessum erfiðu tímum, til hennar leita margir. Ef kirkjan getur ekki sinnt hlutverki sínu með sóma grefur það í fyrsta lagi undan kirkjunni og í öðru lagi leiðir það til þess að fólkið sem þarf á þessari þjónustu að halda fær hana ekki. Við viljum auðvitað að svona samfélagsleg þjónusta sé (Forseti hringir.) veitt, sérstaklega á tímum þegar hennar er svo mikil þörf.