141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

468. mál
[20:53]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Í upphafi máls míns um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum vil ég koma aðeins inn á hina almennu efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og forgangsröðun sem birtist í þessu frumvarpi sem og fjárlögunum sem við greiddum atkvæði um eftir 2. umr. í dag, í langri atkvæðagreiðslu. Í fjárlögunum kemur vissulega líka fram ákveðin forgangsröðun í efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og það er eðlilegt þar sem þau eru jú pólitísk yfirlýsing um flesta þætti samfélagsins.

Í fjárlagaumræðunni og þar af leiðandi að einhverju leyti í þessari umræðu líka var fjallað um vinnubrögðin sem við ástundum hér. Ríkisstjórnin og meiri hlutinn vinna verk sitt án þess að hleypa stjórnarandstöðunni að og leita til hennar eins og alsiða er til að mynda hjá flestum sveitarfélögum landsins og er einnig gert í hinu norræna pólitíska umhverfi. Þessi ríkisstjórn hefur nú oft kennt sig við norræna velferð og norræn stjórnmál.

Ég nefndi í ræðu minni í sambandi við fjárlögin að fjárlaganefnd fór til Svíþjóðar og kynnti sér vinnubrögðin þar. Ef menn hefðu sama verklag hér og þar tíðkast tel ég að fjárlagaumræðan síðustu daga hefði verið öðruvísi, og reyndar líka atkvæðagreiðslan, hún hefði ekki orðið eins löng og flókin. Það er vegna þess að þá væri búið að fara yfir þann ramma og menn hefðu skýra sameiginlega sýn á það hvaða tekjum við höfum úr að spila þegar kemur að útgjöldunum. Hér snýr þetta eiginlega allt á haus. Við erum nú í 1. umr. um tekjuhluta fjárlaganna og þar má sjá áframhald á þeirri efnahagsstefnu sem ríkisstjórnin hefur framfylgt á þessu kjörtímabili, þ.e. að bæta stöðugt í skattana, setja jafnvel nýja skatta og breyta sköttum. Ég held að rætt hafi verið um það í fyrra að búið væri að gera um 170 breytingar á skattkerfinu á kjörtímabilinu, og mundi minna nægja til að æra óstöðugan.

Þetta hefur auðvitað valdið því að hér er orðin mikil pólitísk óvissa fyrir fjárfestingar í landinu, sama á hvaða sviði þær eru. Það er auðvitað þeim mun bagalegra þar sem fjárfesting er í sögulegu lágmarki. Þrátt fyrir að hæstv. forsætisráðherra hreykti sér af því í umræðu fyrir nokkrum dögum að fjárfesting hefði aukist um 25% er það frá nánast engu. Það var líka sýnt fram á í umræðu í dag að áætlanir um fjárfestingu næstu ára gætu orðið jafnvel minni en á umliðnum árum. Það mundi þýða að við værum að stefna inn í fjögurra, fimm ára skeið þar sem fjárfesting er í sögulegu lágmarki, minni en nokkru sinni á öllum lýðveldistímanum, einmitt núna þegar við þyrftum gríðarlega mikla fjárfestingu í landinu til að auka hagvöxt svo hægt sé að standa undir velferðinni og vexti samfélagsins, en hér er því ekki að heilsa.

Í ýmsum samanburði hefur hin pólitíska óvissa og óreglan og óvissan í skattalegu tilliti haft þau áhrif að í mörgum atvinnugreinum hafa menn haldið að sér höndum. Hér á undan ræddu hæstv. fjármálaráðherra og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson nokkuð um raforkuskattinn sem nú á að framlengja til þriggja ára til viðbótar þrátt fyrir að gert hafi verið samkomulag við stóriðjuna um að þetta væri tímabundinn skattur. Eitt er óskiljanlegt í umræðunni um raforkuskattinn. Hann hækkar örlítið, úr 12 aurum nú í 12,6 aura, ef ég man rétt, og er framlengdur til þriggja ára. Í áliti meiri hlutans um frumvarp til fjárlaga er talað um að raforkuskatturinn geti orðið undirstaða þess að jafna húshitunarkostnað. Það hefur verið reiknað út í nefnd á vegum hæstv. fyrrverandi iðnaðarráðherra, fyrr á þessu kjörtímabili, að það þyrfti um 11 aura til að jafna húshitunarkostnað á landinu öllu eða um 1.700 millj. kr. Látið er í það skína að nota megi þennan skatt sem á að skila um 2 milljörðum, sem er gott betur en það sem jöfnunin þyrfti að vera, að minnsta kosti ef miðað er við árið í fyrra, seinna meir til þess að jafna húshitunarkostnað.

Þá verð ég eiginlega að spyrja hæstv. ráðherra hvernig þetta fari saman, annars vegar að skatturinn renni út eftir þrjú ár og hins vegar að hann eigi jafnvel að verða grundvöllur þess að jafna fullkomlega húshitunarkostnað á landinu. Ég sé ekki alveg samhengið í þessu.

Hæstv. atvinnuvegaráðherra, í svari við fyrirspurn minni um þetta fyrr í haust, taldi öll tormerki á því að leggja á jöfnunargjald, á sama hátt og t.d. olíugjald og símamínútur svo eitthvað sé nefnt, en á sama tíma eru engin tormerki á því að leggja þennan skatt á til sex ára, hann á að verða undirstaða jöfnunar til framtíðar en engu að síður renna út eftir þrjú ár. Þarna er eitthvað sem á eftir að svara.

Varðandi hina pólitísku óvissu má líka nefna að í fyrra var skyndilega settur á kolefnisskattur sem meðal annars átti að leggjast á hráefni og olli verulegum titringi meðal fyrirtækja sem ætluðu sér að fjárfesta hér. Eitt fyrirtækið sem hugðist fjárfesta á Suðurnesjum og var langt komið með það og mætti á fund atvinnuveganefndar í fyrra, hefur nú horfið af vettvangi og enginn séð neitt til þess. Þó hafði virst stefna í að fjárfestingin væri að fara af stað innan nokkurra vikna þegar skatturinn var lagður á. Það skyldi þó ekki vera eins með það og fyrirtækið sem ætlaði að byggja upp kísiliðju í Þorlákshöfn en gafst upp á að bíða eftir öllu því umhverfismati sem þurfti að gera og tók óskilgreindan tíma. Ef fyrirtækinu hefði verið sagt að það tæki tvö eða þrjú ár hefðu þeir hugsanlega byggt upp hér á Íslandi, en af því þeir fengu ekkert um það að vita fóru fyrirtækið til Kanada og byggðu sig upp þar.

Ferðaþjónustan hefur orðið mörgum hugleikin í umræðunni og ég ætla að koma aðeins inn á hana. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það komi til greina, sem margir hafa nefnt og ég heyrði fyrst í kjördæmavikunni frá aðilum í ferðaþjónustunni, að í stað þess að hækka virðisaukaskatt á gistinguna til að fá inn óskilgreindar tekjur sem mundu hafa áhrif á ferðamannafjöldann kæmi til greina að leggja á svokallaðan umhverfis- eða náttúrupassa. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það komi enn til greina í meðferð þessa máls í þinginu að sú leið verði farin. Hún virðist geta skilað að minnsta kosti jafnmiklu og áætlaður skattur án þess að hafa áhrif á fyrirhuguð ferðalög ferðamanna til Íslands.

Þetta er mjög áhugavert og við getum horft til annarra landa í þessu samhengi, t.d. Þýskalands. Nú var þingmannahópur á ferð meðal annars í Dresden í Þýskalandi, sem er svæði eins og mörg svæði á Íslandi þar sem atvinnuástandið er bágborið og menn byggja mikið á ferðaþjónustu. Meðal annars var ákveðið að lækka virðisaukaskatt á gistingu í upphafi kreppunnar til að tryggja að ferðamenn héldu áfram að gista í Þýskalandi. Það tókst glimrandi vel og á Dresden-svæðinu tókst það svo vel að þar hefur orðið 20% aukning á milli ára í gistingu. Við getum síðan borið Þjóðverja saman við Dani sem gerðu þetta ekki. Þar lifa menn mjög erfiða tíma í ferðaþjónustunni í dag og í Danmörku er hæsti ferðaþjónustuskatturinn á gistingu í heiminum. Hann verður það vonandi áfram, hann verði alla vega ekki hæstur hjá okkur. Svíar fóru sömu leið og Þjóðverjar og þess vegna er svolítið sérkennilegt að við skulum fara aðra leið.

Varðandi afnám undanþágu vegna vörugjalda á bílaleigur hefur hæstv. ráðherra kynnt að einungis verði farin hálf leið að þessu marki, en ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé rétt skilið hjá mér að heimildin til að ganga alla leið árið eftir sé felld úr gildi.

Tíminn líður hratt og ég ætlaði að nefna nokkur atriði þannig að ég ætla ekki að fara dýpra í ferðaþjónustuna þótt vissulega væri veruleg ástæða til.

Ég ætla að nefna nokkur gjöld sem tengjast því yfirmarkmiði að bæta lýðheilsu á Íslandi. Það á að hækka gjald á tóbak, hækka gjald á áfengi og hækka gjald á sykur. Allir hafa skilning á því að óhollt sé að nota tóbak og hv. stjórnarþingmaður Lilja Rafney Magnúsdóttir sagði í gærkvöldi að hún óskaði þess að allir hættu að reykja og nota tóbak. Þá mætti spyrja hvort það sé stefna hv. stjórnarþingmanns að allir hætti að nota áfengi og jafnvel má ganga lengra og spyrja hvort það sé líka stefna stjórnarþingmannanna að allir hætti að nota sykur og að þetta muni allt saman virka í þessa veru. Þá kemur aftur á móti spurningin: Hvar ætlar ríkisstjórnin að fá þær tekjur sem hún reiknar með af þessum gjöldum? Það er margt sérkennilegt í þessu.

Í Danmörku lögðu menn á sykurskatt, hann var hafður á í tvö ár en síðan tóku menn hann af vegna þess að hann virkaði ekki. Þetta er því umdeilanleg aðferð. Það má líka benda á að áfengisgjaldið er orðið það hátt að því miður er það staðreynd að meðal ungs fólks hefur orðið aukning á neyslu á maríjúana og hassi vegna þess að ódýrara er að nota ólögleg vímuefni en áfengi, og auðvitað heimagert áfengi eins og landa sem er ekki mjög heppilegt. Ég óttast að þetta sé áframhaldandi þróun, nema að sykurskatturinn sé hugsanlega leið til að koma á skatti á þá sem stunda landaframleiðslu. Þarna er ýmislegt óskýrt enn og spurning hvort við þurfum alltaf að elta það sem aðrir hafa gert og detta í sama pott og Danir með sykurgjaldið, gera sömu mistökin hér eins og þar, þótt ég skilji yfirmarkmiðið, að reyna að hafa áhrif á neyslu almennings til þess að bæta lýðheilsuna.

Það sem ég ætlaði að koma aðeins inn á er sú efnahagsstefna sem birtist meðal annars í stöðugum skattbreytingum og í fjárlagafrumvarpinu í dag og bera saman við ágæta skýrslu sem McKinsey-fyrirtækið gaf út á dögunum. Sú skýrsla var kynnt og fékk þokkalega umræðu en ekki nægilega að mínu mati. Þar eru atvinnuvegir skilgreindir og flokkaðir í þrjá flokka. Í hinum alþjóðlega atvinnugeira er bent á í skýrslunni að þar séum við með of lága prósentu miðað við Norðurlöndin, við erum reyndar ekkert fjarri Norðmönnum en engu að síður of lítið hlutfall. Það taki langan tíma að byggja upp þær atvinnugreinar en langtímaverkefnið sé að verða samkeppnisfær á alþjóðlegum mörkuðum hvað varðar pólitíska óvissu, skattstefnu, fjárfestingarmöguleika og annað í þeim dúr.

Við erum klárlega ekki á þeirri leið, ríkisstjórnin er klárlega ekki á þeirri leið. Hún gerir það sífellt erfiðara fyrir alþjóðleg fyrirtæki eða fyrirtæki á alþjóðlegum mörkuðum að starfa hér á landi.

Síðan er annar þáttur atvinnuvega sem er gríðarlega mikilvægur á Íslandi og byggist á náttúruauðlindum. Það er fiskurinn, fiskveiðar og fiskvinnsla og markaður með þær vörur, orkugeirinn allur og að hluta til ferðaþjónustan og landbúnaður. Sjávarútvegurinn og orkugeirinn eru þær atvinnugreinar sem skila okkur mestu í dag. Þar er mesta framleiðnin, þar vinna fáar hendur en skila mjög miklu til samfélagsins. Framleiðnin er mikil, mikil arðsemi og skilar okkur miklum tekjum. Í þeim geira er í raun og veru ekki skynsamlegt að auka umsvif og ekki alls staðar hægt vegna þess að auðlindin er takmörkuð. Mikilvægast er fyrst og fremst að auka þekkingu og auka arðsemina.

Síðasti þátturinn, sem tekur því miður 65–70% af mannaflanum í vinnu, er heimamarkaðurinn. Það er opinbera þjónustan, bankakerfið, verslun og þjónusta, hluti af ferðaþjónustunni, allur skalinn af skapandi greinum. Þessi geiri skilar allt of litlu. Þar er allt of lítil framleiðni. (Forseti hringir.) Sá ágæti hópur sem stendur að skýrslunni telur að á næstu árum þurfi að losa um 13 þús. manns þar (Forseti hringir.) til að koma þeim í arðbærari störf (Forseti hringir.) og þá segi ég: Hvar var fjárfestingarstefnan sem var kynnt í fjárlögunum í dag, miðað við McKinsey-skýrsluna?