141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

vörugjöld og tollalög.

473. mál
[21:51]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil alls ekki gera lítið úr því að verið sé að samræma vörugjöld á brauðrist og samlokugrill en er verið að setja af stað tvo vinnuhópa til að ná þeirri niðurstöðu? Er málið ekki stærra en svo? Hvenær eigum við að skoða það? Er ekki 6. desember í dag? Eigum við að kanna samkeppnisstöðu íslenskrar verslunar núna í desember? Ég verð að viðurkenna að ég fyllist ekki ómældri gleði yfir því að verið sé að setja vörugjöld á nuddbaðkör og nuddpotta. Var farið í alla þessa vinnu til að ná þeirri niðurstöðu?

Ég spurði líka hæstv. ráðherra hvernig hún ætlar að framkvæma það að ná sömu skattlagningu á sætuefni og sykur. Sætuefni eru mismunandi, þau eru í örri þróun. Eiga tollayfirvöld að verða sérfræðingar í sætuefnum? Verður það einhver sérdeild hjá tollinum? Það er alveg ljóst að sykurskatturinn virðist ansi dýr í framkvæmd hjá hinu opinbera. Ég er með sér þingmál sem heitir Viðskiptastefna Íslands vegna þess að mér finnst ástandið fullkomlega óþolandi. Það er óþolandi að vera að skattleggja verslun út úr landinu. Auðvitað munu menn versla í útlöndum og það er hið besta mál, en hlutfallið er allt of hátt. Það er eitthvað að í gjalda-, tolla- og skattstefnu okkar þegar við erum með svona hátt hlutfall af ákveðnum vörum í útlöndum.

Búið er að setja tvo vinnuhópa af stað, eða réttara sagt hæstv. ráðherra, og þeir segja bara: Við komust ekki að neinni niðurstöðu. Ég spyr enn og aftur: Er það virkilega þannig að það eigi að vera sérfræðingar hjá tollinum sem finnur út skattlagningu á sætuefni eins og (Forseti hringir.) verið væri að nota sykur? Af hverju í ósköpunum var ekki tekið á stóru þáttunum í því máli?