141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

vörugjöld og tollalög.

473. mál
[22:01]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður veit vel hvað ég er að tala um. Í aðra höndina erum við að gera almennar umbætur á kerfinu þar sem hlutirnir eru samræmdir. Menn mega heldur ekki gera lítið úr því. Við getum alveg haldið áfram með þá vinnu og ég er vel til í það eins og ég lýsti áðan.

Við stígum mikilvæg skref sem enginn hefur stigið árum saman í þessu kerfi og það er vel. Á hinn bóginn setjum við á svokallaðan sykurskatt sem lengi hefur verið rætt um og ég tel að um hann hafi ríkt þó nokkur sátt í þingsölum í gegnum árin. Menn hafa bara ekki fundið leiðina fyrr en nú. Ég tel að sú leið sem er farin í álagningu sykurskatts, til að reyna að stemma stigu við óhóflegri neyslu á sykri, sé sú besta sem hægt var að fara. Það gerum við með því — (Gripið fram í.) Hv. þingmaður vill kannski eiga við mig samtal á eftir ef ég fæ að klára ræðu mína. Það er auðvitað gert þannig að menn greiða eftir hlutfallslegu sykurinnihaldi vörunnar. Það hlýtur að vera réttlátasta leiðin. Það er það sem ég á við þegar ég tala um réttlátar leiðir í þeim efnum.

Ég held að um það mál eigi að geta ríkt þó nokkur samstaða í þinginu. Ég trúi því ekki að menn séu á móti því að við reynum að gera bragarbót á vörugjaldakerfinu. Ég trúi því ekki heldur fyrr en ég tek á því að menn séu ekki tilbúnir í þann leiðangur að leggja á sykurskatt eins og hér er gert.

Virðulegi forseti. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því að ekki verði samstaða að fara þá leið.