141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

vörugjöld og tollalög.

473. mál
[22:13]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á jákvæðu nótunum. Ég tel að það sé jákvætt að hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar sé tilbúinn að skoða breytingar á kerfinu eins og lagt er upp með frumvarpinu. Ég tel fulla ástæðu til þess. Ég segi, eins og ég sagði í andsvörum við hæstv. fjármálaráðherra, að það eru vissulega jákvæðar breytingar í frumvarpinu.

Ég hef ekki trú á sykurskattinum sem þarna er verið að leggja til, ég hef áhyggjur af honum. Ég held að hann verði flókinn í framkvæmd og sé ekki til þess fallinn að ná þeim manneldismarkmiðum sem hæstv. fjármálaráðherra gerði grein fyrir áðan. Ég held að ef fjármálaráðuneytið hefði trú á þessum manneldismarkmiðum væri ekki reiknað með jafnmikilli tekjuaukningu og fram kemur í áætlunum frumvarpsins.

En burt séð frá því vildi ég benda hv. þm. Helga Hjörvar, sem á eftir að fjalla um málið í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, á reynslu annarra þjóða varðandi skattheimtu af þessu tagi. Eftir því sem mér skilst hefur verið mikil umræða í Danmörku um sambærilega skattheimtu þar sem menn eru að leggja hana af. Ég held að það væri mjög eðlilegt áður en við tökum hana upp hér að menn kynntu sér reynslu næstu nágranna okkar af skattheimtu af þessu tagi.