141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

vörugjöld og tollalög.

473. mál
[22:14]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og ég þekki málið er núgildandi vörugjaldakerfi á Íslandi byggt á hinu danska vörugjaldakerfi sem, ólíkt því sem haldið var fram fyrr í umræðunni í dag, hefur ekki verið í gildi þar í tvö ár, ef ég veit rétt, heldur um mjög langt skeið. Það virðast vera nokkrar sveiflur í pólitískri umræðu um þessa gjaldtöku í Danmörku því að eftir því sem ég best veit er tiltölulega mjög stutt síðan Danir ákváðu að gera skatttökuna víðtækari og láta hana ekki aðeins ná til sykurs heldur leggja líka sérstakan skatt á herta fitu. En það er rétt að umræður eru um það nú að hverfa frá þessari gjaldtöku. Kann það að stafa af því með hvaða hætti ríkisstjórnin í Danmörku er nú samansett.

Ég held hins vegar að stjórnmálamenn geti ekki litið fram hjá því að stærstu verkefnin í lýðheilsumálum sem menn eiga við að fást nú um stundir fylgja ofneyslu á þessum þáttum. Menn hafa kosið að leggja sérstök gjöld á aðrar vörur, einkanlega áfengi en ekki síst á tóbak vegna þess að menn hafa trú á því að með slíkri gjaldtöku hafi menn áhrif á neyslu. Það þótti vissulega óvinsælt þegar menn voru að taka hér fyrstu skrefin í því efni, en ég held að þeir séu orðnir býsna fáir sem leggjast nú orðið gegn því að menn taki til að mynda ríkuleg gjöld af tóbaki sem selt er. Miðað við þau gríðarlegu lýðheilsuvandamál sem fylgja ofneyslu þeirra hluta sem hér eru undir held ég að sannarlega sé ástæða til að leita leiða til að hafa áhrif á þá þróun því að hún er satt að segja ekki vænleg.