141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

vörugjöld og tollalög.

473. mál
[22:17]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alltaf gott að vita að til eru góðgjarnir stjórnmálamenn sem vilja tryggja að við lifum góðu og heilbrigðu lífi og nota skattheimtu til að stýra neyslu okkar. Ég er ekki alveg viss um að það verði afleiðingin af henni en það kann vel að vera. Ég hef hins vegar áhyggjur af þeirri skattahækkun sem felst í þessu frumvarpi af því að ég hef ekki mikla trú á því að manneldismarkmiðið náist, eins og ég sagði áðan. Það verður fyrst og fremst um að ræða útgjaldaauka fyrir heimilin í landinu. Það verður útgjaldaauki sem birtist ekki bara í hærra verði þeirrar vöru sem fólkið kaupir heldur kemur þetta líka til með að spila inn í vísitölu og hafa áhrif þar. Síðan bætast auðvitað við vísitöluáhrif annarra gjaldabreytinga sem ríkisstjórnin stendur nú að. Það er dálítið hlálegt að á sama tíma og menn tala um skuldamál heimilanna sem stærsta viðfangsefnið á vettvangi stjórnmálanna, skuli ríkisstjórnin trekk í trekk koma með frumvörp sem hafa strax þau áhrif að hækka skuldastöðu íslenskra heimila. Þá geta menn komið og sagt: Það á bara að afnema vísitölutengingar. En á meðan þær eru fyrir hendi eru þetta hin beinu áhrif ákvarðana sem teknar eru í þessum sal af meiri hluta ríkisstjórnarflokkanna.