141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

vörugjöld og tollalög.

473. mál
[22:24]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli fólks á því hvað hv. þingmaður sagði. Kannski er það svo að ástæðan fyrir ESB-dýrkun Samfylkingarinnar sé fullkominn misskilningur. Hv. þingmaður sagði: Við göngum bara í ESB, þá falla allir tollar og gjöld niður, þetta verður allt annað líf.

ESB er tollabandalag. Við erum nú með flestan þann aðgang sem við getum gegnum EES, en ESB er sá aðili sem hefur staðið helst í vegi fyrir frjálsri heimsverslun. Nú er það þannig að við getum ráðið því öllu saman. Við getum lagt einhliða niður tolla ef við bara viljum. Við getum gert þá fríverslunarsamninga sem við viljum og höfum gert það. EFTA hefur haft ákveðið frumkvæði undir okkar forustu. ESB hefur engan áhuga á fríverslun í heiminum, hefur í það minnsta ekki sýnt það í verki. Það er mjög alvarlegt ef forustumenn Samfylkingarinnar vita ekki meira um ESB og það getur hver sem er lesið þetta. Menn þurfa ekki að hlusta á mig heldur bara kynna sér málið.

Síðan er annar misskilningur mjög alvarlegur, að ef vörur eru ekki með 25,5% virðisaukaskatt sé ívilnun í skattinum. Trúir hv. þingmaður því? Ég hélt að það væri einkaskoðun eins af þeim sem hefur verið hæstv. fjármálaráðherra í þessari ríkisstjórn, en það virðist vera algild skoðun Samfylkingarinnar að það sé sérstök ívilnun ef ekki er 25,5% virðisaukaskattur. Hv. þingmaður sagði að það væri almenna reglan að virðisaukaskattur væri 25,5%. Ekkert er fjær lagi. Það er svo sannarlega ekki almenn regla. Hér eru nokkur virðisaukaskattsstig, allt of mörg, m.a. núll. Þetta er svo sannarlega ekki almenn regla. Það er alveg ljóst hver draumur Samfylkingarinnar er. Það er að koma öllu í 25,5% þannig að það verði engar ívilnanir.