141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

vörugjöld og tollalög.

473. mál
[22:26]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við þurfum nú ekki að rífast mikið um tolla, ég og hv. þingmaður. Við erum út af fyrir sig báðir áhugamenn um frjálsa verslun og viðskipti, sem minnstar hömlur á það milli landa og yfir landamæri. Það gerir mig að Evrópusinna en hann að einhverju öðru. Ég held að við munum eftir sem áður kappkosta að gera fríverslunarsamninga og leitast við að draga úr viðskiptahindrunum við landamæri Íslands, eins og kostur er.

Hvað varðar að það sé ívilnun að vera ekki í hinu almenna þrepi virðisaukaskattsins, þá er það þannig. Það er ívilnun. (Gripið fram í.) Það geta hins vegar verið ýmsar ástæður fyrir því að slíkar ívilnanir séu veittar, það eru röksemdir fyrir því. Til dæmis bera útflutningsgreinar ekki virðisaukaskatt, það er einfaldlega þannig. Það er vegna þess að við teljum að svona sé málum best skipað. Það sé eðlilegt fyrirkomulag og ekki sé ástæða til að krefja þær greinar um virðisaukaskatt enda er það ekki almennt gert í viðskiptum þjóða. Það eru líka röksemdir fyrir því að bóka- og blaðaútgefendur sem starfa í þessu litla málsamfélagi þurfi ekki að greiða hinn almenna virðisaukaskatt heldur hinn lægri. Það var raunar Samfylkingin sem fann upp lægra virðisaukaskattsþrepið þannig að það er ekki sérstakur draumur okkar að koma öllu í 25,5%. Þvert á móti börðust jafnaðarmenn á Íslandi fyrir því með oddi og egg að knýja fram hið lægra þrep og hinn fræga matarskatt sem Jóhanna Sigurðardóttir innleiddi á sínum tíma. Til þess einmitt að tryggja að með ívilnunum (Gripið fram í.) mætti í því tilfelli skapa sem best almenn skilyrði fyrir láglaunafólk og meðaltekjufólk í landinu til að standa straum af matarkostnaði sem er tiltölulega hár, einkanlega hjá lágtekjufólki sem hlutfall af tekjum þess.