141. löggjafarþing — 48. fundur,  6. des. 2012.

vörugjöld og tollalög.

473. mál
[22:52]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Sú lagabreyting sem við ræðum fjallar mest um sykur, sætuefni og slíkt og það að hafa vit fyrir fólki. En það er líka fleira. Á bls. 19 stendur, með leyfi herra forseta:

Í c-lið greinarinnar er lagt til að tollskrárnúmer 4421.9021 bætist við C-lið viðaukans og beri því 15% vörugjald. Undir það númer fellur hreinlætisbúnaður úr viði fyrir baðherbergi.

Síðan er talað um annað tollskrárnúmer, sem ég nenni ekki að lesa, en þar undir falla nuddbaðker, nuddklefar og nuddpottar. Plastbaðker án nudds falla undir tollskrárnúmerið 3922.1000 og stálbaðker án nudds falla undir tollskrárnúmer 7324.2100. Heiti potturinn sem er án nudds fellur undir tollskrárnúmerið 3922.9009 o.s.frv. Öll þessi tollskrárnúmer bera 15% vörugjald. Þá vitum við það.

Þarna er verið að lauma inn einhverri breytingu, hugsanlega mjög skynsamlegri. Ég legg til að nefndin fari mjög nákvæmlega í gegnum það.

Baksýnisspeglar í ökutæki falla undir tollskrárnúmer, loftpúðar ökutækja, sem sagt ýmisleg öryggistæki. Ég geri ráð fyrir að verið sé að fella niður vörugjald af þeim vörum.

Svo kemur það sem skiptir kannski mestu máli. Það er líka talað um samlokugrill, grill og vöfflujárn og annað slíkt. Ég veit að það hafa verið ákveðin vandamál með aðgreiningu þar og ég held að verið sé að samræma það allt saman. Að lokum er lagt til að vörugjald á varmadælum til heimilisnota verði fellt niður, bæði með tilvísun til samræmingarsjónarmiða vegna annarra varmadælna og með tilvísun til umhverfissjónarmiða.

Þetta er það jákvæða sem ég sé við frumvarpið, svo ég endi í raun og veru á jákvæðum nótum.