141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

búnaðarlög og framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

448. mál
[10:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þegar gæðastýring var tekin upp í landbúnaði ofan frá, ekki neðan frá eins og í flestum öðrum atvinnugreinum þar sem fyrirtækin finna sjálf hjá sér hvöt til að fara í gæðastýringu, olli það gífurlegri skriffinnsku fyrir bændur. Ég hef rætt við bónda sem segir að það sé svona hálft starf í skriffinnsku við sauðburðinn að skrá öll lömbin. Hann sagði að hann hefði nú vitað þetta allt saman áður, hann mundi allt saman varðandi fé sitt, enda glöggur fjárbóndi eins og flestir fjárbændur eru.

Þetta er eflaust gott að einhverju leyti en í þessu felst óskapleg vinna. Nú vil ég spyrja: Hvað þýðir þetta sem stendur á síðu 6? Með leyfi forseta:

„Til að bæta bændum að hluta þann skaða sem óveðrið á Norðurlandi olli í september síðastliðnum er í frumvarpinu einnig lögð til breyting á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Lagt er til að sett verði heimild í bráðabirgðaákvæði laganna um að leyfilegt verði að greiða beingreiðslur og álagsgreiðslur vegna gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu til bænda sem verða fyrir fjárskaða vegna óveðurs eins og gildir þegar um er að ræða niðurskurð vegna sjúkdóma eða afurðatjón af völdum náttúruhamfara.“

Fá þeir bændur sem ekki tóku þátt í þessu af ýmsum ástæðum, bæði vegna þess að þeir kunnu ekki á tölvur, kunnu ekki á kerfið, vissu ekki af því eða vildu það ekki, ekki bætur samkvæmt þessu? Þeir hafa fengið 25% lægri beingreiðslur, það er búið að refsa þeim fyrir að taka ekki þátt í kerfinu, en á sem sagt að refsa þeim áfram sem lentu í þessum fjárskaða?

Svo væri ágætt að fá að vita hvernig fjárskaðinn, sem var gífurlegt tjón fyrir bændur, er bættur, bæði af opinberum aðilum, söfnun og síðan með þessum hætti.