141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

búnaðarlög og framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

448. mál
[10:47]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Vegna þeirra orða sem féllu áðan hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal og umræðu um málið þá skiptir auðvitað miklu að það sé alveg tryggt að allir þeir bændur sem urðu fyrir skaða eigi rétt á bótum og enginn mismunur sé gerður eftir því hvernig staða þeirra er gagnvart kerfinu, ef svo má að orði komast. Ég skil hæstv. ráðherra þannig að svo sé málum komið að það sé tryggt að fullt jafnræði sé milli allra og allir muni njóta bóta með sama hætti.

Ég vil að öðru leyti nefna að ég tel að það fyrirkomulag sem verið er að koma hér upp varðandi leiðbeiningarþjónustuna í landbúnaðinum, ég fæ ekki annað séð en að það sé til bóta. Það er unnið í samráði og samræmi við óskir Bændasamtakanna og er til þess fallið að draga úr kostnaði og um leið auðveldar það líka vinnu alla. Það hlýtur því að vera nokkuð breiður stuðningur við slíkt ráðslag, virðulegi forseti.