141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

búnaðarlög og framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum.

448. mál
[10:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum breytingu á búnaðarlögum og lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, leiðbeiningarþjónustu, búvörusamninga o.fl.

Íslenskur landbúnaður hefur löngum verið mjög niðurnjörvaður í alls konar reglum, boðum og bönnum. Þetta er dæmigert sovétkerfi eins og var við lýði í Sovétríkjunum í 70 ár en hér hefur það því miður ekki farið enn þá. Kerfið byggir til dæmis á skylduaðild bænda að félagasamtökum bænda, þeim er gert að borga búnaðargjald til Bændasamtakanna og svo er ríkið að borga líka til þeirra sömu samtaka, þ.e. skattgreiðendur.

Bændur á Íslandi eru afskaplega duglegt fólk og framtakssamt. Þrátt fyrir þetta kerfi sem neglir þá niður í alla enda hafa þeir sýnt ótrúlega mikið frumkvæði, til dæmis að selja beint frá býli og margt annað, sem þeim tekst að gera þrátt fyrir kerfið, frú forseti.

Það sem við ræðum hér er aukin miðstýring, það á að taka upp leiðbeiningarþjónustu, það á að taka upp ráðunauta sem sinna faglegum leiðbeiningum til bænda o.s.frv. Það á sem sagt að halda áfram að stýra bændum ofan frá.

Flest fólk er þannig að það vill geta ráðið umhverfi sínu og líður því betur sem það ræður meiru. Ég held því að þetta kerfi sé mjög slæmt. Nú vill svo til að ég ræði einstaka sinnum, mjög sjaldan, allt of sjaldan við bændur, og þeir hafa sagt mér að þegar mest er að gera hjá sauðfjárbændum, þ.e. við sauðburðinn, þá er bætt á þá kvöðum að skrá hvert einasta lamb. Það er svo mikil skráning að það fer hjá litlu búi um ¼ starfskraftur í það að skrá, ¼ starfskraftur þegar mest er að gera, þegar vökurnar eru alveg hreint endalausar og fólk þarf að alltaf vera viðbúið.

Þetta er kerfi sem er sett á ofan frá. Ef bóndinn tekur ekki þátt í þessu fær hann 25% minni beingreiðslur, 25% minni styrk frá ríkinu, sem eru beingreiðslurnar, sem eru fleiri milljarðar á ári, nota bene. Þannig er bændum þrýst inn í kerfi sem er stýrt ofan frá af Bændasamtökunum, sem eru embættismenn sem margir búa í Reykjavík og starfa með þessu búnaðargjaldi sem bændum er gert að greiða og þessu kerfi er þrýst á ofan frá.

Í mörgum atvinnugreinum hafa menn tekið upp gæðastýringu, mjög mörgum, og það hefur reynst afskaplega vel. En það kemur neðan frá, það kemur vegna þarfar að gera eitthvað skynsamlegt. Því er ekki stýrt ofan frá hvar bændur eiga að beita sínu fé, því er ekki stýrt ofan frá hvernig eigi að merkja lömbin o.s.frv. Þetta er gert á Íslandi. Þessu er stýrt ofan frá, gæðastýringin kemur ofan frá og þess vegna held ég að hún sé langt í frá því eins virk og hún væri ella. En bændur, þrátt fyrir það, hafa sýnt mikið frumkvæði og ég ætla að vonast til þess að einhvern tíma brjótist þeir út úr því helsi sem búnaðarkerfið allt er.

Við höfum séð uppreisnir eins og hjá Mjólku og fleirum, þar sem uppreisn er í kerfinu. Ég held að það kerfi sem við höfum byggt upp og er náttúrlega haldið krampakenndu taki af bæði Bændasamtökum og núverandi ríkisstjórn, sem er vinstri sinnuð, sé slæmt fyrir bændur og brýtur niður frumkvæði þeirra. Þetta er slæmt fyrir neytendur vegna þess að þó að bændur séu með mjög mikið frumkvæði fá neytendur ekki nægilega góða vöru vegna kerfisins. Og það er slæmt fyrir skattgreiðendur. Þetta hefur kostað skattgreiðendur mjög mikið og neytendur náttúrlega líka af því að samkeppni er lítil. Ég held að við ættum að fara að hverfa frá þessu sovétkerfi.