141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

456. mál
[11:14]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa framsöguræðu. Ég tel rétt að það komi fram að hér er lagt til 122 millj. kr. mótframlag frá ríkinu vegna þess að Fjármálaeftirlitið tekur við IPA-styrkjum frá Evrópusambandinu sem á að verja til umbótaverkefna, hvað sem það nú þýðir í þessu samhengi.

Mig langar einnig til að benda á að í greinargerð frá fjárlagaskrifstofu kemur fram að velta Fjármálaeftirlitsins á næsta ári verður rúmir 2 milljarðar og þar af fjármagnast tæpir 1,7 milljarðar með sköttum sem lagðir eru á fjármálafyrirtækin. Það leiðir náttúrlega af sér að það gjald sem fjármálafyrirtækin verða að inna af hendi fer beint út í verðlagið.

Það er athyglisvert að skoða þetta í því ljósi að samkvæmt ríkisreikningi 2007 var velta Fjármálaeftirlitsins einungis 600 milljónir. Hækkunin hefur því numið hátt í 350%. Eins og allir vita varð hér bankahrun á haustdögum 2008. Þá var fjármálakerfið okkar langtum stærra en það er í dag, en samt er hækkunin 350%. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Er ekki komin einhver skekkja í ríkisbókhaldið þegar svo miklu munar, nú þegar bankakerfið hefur skroppið saman eins og raun ber vitni?