141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

456. mál
[11:16]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það mætti sjálfsagt álykta svo, þ.e. ef menn eru sannfærðir um að rekstrarumfang og geta Fjármálaeftirlitsins hafi verið fullnægjandi miðað við stærð bankakerfisins árið 2007. En ætli það sé ekki þannig að flestir séu sammála um að það hafi verið eitt af því sem brást mjög alvarlega. Auðvitað var eftirlitið langt á eftir og alls ómegnugt því að fylgja hinum stóru útþöndu bönkum eftir, hvað þá að hafa eftirlit að því leyti sem því bar að gera, t.d. að hafa eftirlit með starfsemi útibúa á erlendri grund. Átti hv. þingmaður nú eitthvað að kannast við það, íslenska Fjármálaeftirlitið átti að vera eftirlitsaðili gagnvart starfsemi banka á erlendri grund, ef hún var í útibúum. Ég held því að viðmiðun um rekstrarumfang FME á árinu 2007 sé ákaflega vondur útgangspunktur þegar meta á hvað þarf í dag.

Fjármálaeftirlitið er væntanlega á þessu ári og því næsta á hápunkti rekstrarumfangs síns vegna þess að menn hafa verið að ljúka úrvinnslu mála sem hefur bundið upp mikinn mannskap og fjármuni. Því er núna að ljúka eins og fréttir bera með sér að mestu leyti. Fjármálaeftirlitið mun þurfa að hafa samstarf við embætti sérstaks saksóknara til að fylgja þeim málum eftir sem þangað eru komin. Úrvinnsla hrunmálanna er að mestu leyti búin og þau mál sem eiga erindi til sérstaks saksóknara eru farin þangað. Það er því að draga úr umfangi þess hluta starfseminnar og á næstu missirum mun starfsemin leita þess jafnvægis sem væntanlega verður talið hóflegt og rekstrarumfangið verður eitthvað minna en þessi árin.