141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

456. mál
[11:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér framlög til opinbers eftirlits með fjármálastarfsemi sem rennur til FME, Fjármálaeftirlitsins, og verður árlegur viðburður. Þegar hrunið varð kom í ljós að mjög margt hafði farið úrskeiðis í eftirlitinu sem margir höfðu treyst á, þar á meðal ég. Ég lagði reyndar ítrekað til að framlag til eftirlitsins yrði aukið til þess að það héldi í við hratt vaxandi bankakerfi. Það tókst ekki alltaf, alveg sérstaklega vegna þess að eftirlitið var í samkeppni um starfsmenn við þetta sama bankakerfi, þannig að það eiginlega endaði sem eins konar uppeldisstöð eða menntunarstöð fyrir sérfræðinga sem fóru svo til bankanna.

Eitt dæmi er af sparisjóðunum. SPRON var til dæmis leyft að hafa allt sitt eigið fé, þetta göfuga fé sem menn eru að tala um, í tveimur hlutabréfum, Exista og Kaupþingi. Allt eigið fé SPRON var í þessum félögum. Eftirlitið lét það óátalið. Svo urðu bæði félögin gjaldþrota, það var reyndar á ákveðnu tímabili svo var eigið fé aukið.

Eftirlitið lét hringferla peninga líka viðgangast sem er löglegt og er enn í lagi lagalega séð, en náttúrlega engan veginn í lagi rökfræðilega séð.

Eftirlitið hefur mörg hlutverk og eitt af því er að hafa eftirlit með lífeyrissjóðum og er ekkert voðalega hátt gjald lagt á þá, ég held að það sé innan þeirra marka sem felst í þjónustu við lífeyrissjóðina, til að hafa eftirlit með þeim. Lífeyrissjóðirnir urðu líka fyrir gífurlegu tjóni og eftirlitið virtist ekki hafa bjargað því neitt mikið. Það gjald er einn af fáum póstum sem hækka í þessu frumvarpi. Ég vil benda á að það er mjög varasamt og menn þurfa að passa sig mjög vel ef leggja á álögur á lífeyrissjóðina vegna þess að þær lenda bara á almennu sjóðunum, þær lenda ekki á opinberu sjóðunum. Af hverju ekki? Vegna þess að réttindi opinberra starfsmanna eru tryggð, þau eru föst. Það er iðgjaldið sem breytist og iðgjaldið á að hækka, þ.e. hjá almennum skattgreiðendum, þannig að sérhverjar álögur á lífeyrissjóðina koma fram sem skattlagning á almennu lífeyrissjóðina því að þeir hafa enga bakhjarla. Þeir þurfa að skerða réttindi og það kemur fram sem aukin skattlagning á sjóðfélaga þeirra. Menn þurfa því að vera mjög varkárir og eiginlega skirrast við að leggja álögur á lífeyrissjóðina nema það sem nauðsynlegt er til þjónustu.

Mig langar til að koma inn á það sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson nefndi hér áðan um neytendavernd. Þann 28. nóvember spurði ég forsætisráðherra um hvar hæstv. ríkisstjórn ætlaði sér að staðsetja neytendavernd á fjármálamarkaði. Sem endranær fékk ég engin svör. Nú er spurning hvort hæstv. ráðherra, sem flytur þetta mál, geti svarað því. Hvar sér hann fyrir sér að neytendavernd á fjármálamarkaði sé staðsett? Á hún að vera hjá Neytendastofu? Þá skulum við segja það, frú forseti, en ef hún á að vera hjá Fjármálaeftirlitinu skulum við segja það og gera ráð fyrir peningum í það. Af hverju segi ég þetta? Vegna þess að tilefnin eru fjöldamörg og þau eru meira að segja svo flunkuný að það eru nánast bara tvær, þrjár vikur síðan síðasta kom upp og ég ætla að fara í gegnum það.

Hér voru ólögleg gengistryggð lán í átta ár og Fjármálaeftirlitið sagði ekki neitt. Það hefur valdið gífurlegu tjóni í bankakerfinu og hjá almenningi og heimilunum. Þetta var látið viðgangast.

Síðan hef ég frétt af því að sparifjáreigendur, eldra fólk margt hvert, hafi fengið símhringingar og viðtöl um að þeir ættu að nota spariféð til að kaupa hlutabréf, t.d. í Kaupþingi. Þetta er allt til á upptökum, frú forseti, og Fjármálaeftirlitið hefur aðgang að þeim. Og ef hægt er að sýna fram á það að eitthvert gamalmenni hafi verið platað til að kaupa hlutabréf í Kaupþingi, af því að það var svo ógurlega tryggt, og hefur tapað sparifé sínu og sparnaði alfarið þá ættu menn að fylgja því eftir. Það er neytendavernd, frú forseti. Ég heyrði sögur af manni sem var búinn að nurla saman 2–3 milljónum og allt tapaðist. Nú á hann ekki krónu og líður mjög illa af því að hann á ekki fyrir jarðarför sinni. Þetta á allt að vera hægt að rekja ef slíkar kvartanir koma upp.

Nú eru neikvæðir raunvextir á sparnaði. Bankarnir leyfa sér að borga sparifjáreigendum vexti sem eru lægri en verðbólgan, þeir leyfa sér að brenna upp sparifé og enginn segir neitt. Það er engin neytendavernd. Enginn kvartar, það er enginn sem segir: Þetta er óhæfa — fyrir utan það náttúrlega að hæstv. ríkisstjórn hefur skattlagt þetta sem ekkert er, þessa neikvæðu raunvexti. Nafnvextirnir eru skattlagðir, þ.e. ríkið bætir í sársaukann.

Svo töpuðu um 55 þús. heimili hlutabréfaeign sinni, þar á meðal gamalmennið sem ég talaði um en það á kannski við um minni hlutann, flestir keyptu hlutabréfin sjálfir og þau höfðu hækkað. Það voru 80 milljarðar sem 55 þús. heimili töpuðu sannarlega á hruninu vegna þess að menn höfðu leyft hér hringferla fjár þvers og kruss þannig að hlutabréfamarkaðurinn sagði ekki satt. Ársreikningar sögðu ekki satt, eigið fé fyrirtækja var sýnt mikið hærra en það var í reynd. Þeir voru bara loft. Og þetta var látið viðgangast. Hvar er neytendaverndin á fjármálamarkaði?

Enn er verið að selja hlutabréf. Það eru útboð alla daga og höfðað til almennings um að kaupa hlutabréf. Það er enn leyfilegt að hafa svona hringferla. Eitthvert hlutafélag getur lagt peninga inn hjá banka sem innstæðu og bankinn lánar svo til kaupa á hlutabréfum í sama fyrirtæki til almennings, til Jóns Jónssonar og Jón Jónsson kaupir svo hlutabréf í fyrirtækinu. Peningurinn fer í hring og eigið fé hlutafélagsins vex og innlán í viðkomandi banka hafa vaxið og útlán hans hafa vaxið og allir voða hamingjusamir. Þetta er enn leyft, frú forseti, það hefur ekkert verið gert.

Svo er hérna á Íslandi í gangi yfirdráttur einstaklinga sem er leyfður. Hann er furðulegt fyrirbæri og tíðkast hvergi annars staðar. Þetta horfa menn á. Neytendastofa horfir á þetta og segir: Mér kemur þetta ekki við. Fjármálaeftirlitið horfir á þetta og segir: Mér kemur þetta ekki við. Þetta er skuld án gjalddaga sem er nánast óþekkt erlendis gagnvart einstaklingum. Þetta er fyrir fyrirtæki til að jafna greiðslustöðu innan mánaðar, yfirdráttur.

Ég nefni lánsveðin sem ollu heilmiklu tjóni og ríkisstjórnin er að reyna að leysa, sem er nánast illmögulegt eða ómögulegt. Ég varaði held ég við því 1977, í bæklingi sem ég skrifaði, að menn ættu ekki að lána veð en sú neytendavernd hefur ekki náð lengra á fjármálamarkaði.

Smálánafyrirtækin ætla ég líka að nefna. Þau eru enn eitt dæmið sem mér finnst ekki vera góður bragur á.

Það er því ekki vanþörf á neytendavernd. Nýjustu fréttirnar, frú forseti, er Eir-dæmið þar sem eldra fólk keypti búseturétt en fær ekki tryggingar af því að það er búið að veðsetja eignina annars staðar.

Hvað er eiginlega að gerast með neytendavernd? Hvar er neytandinn verndaður fyrir slíku? Hver sinnir þessu? Er það Fjármálaeftirlitið? Er það Neytendastofa? Ég spyr hæstv. ráðherra: Hver á að sinna þessu? Hver á að grípa inn í og segja: Heyrðu, þetta gengur ekki, þetta verðum við að banna? Ég hugsa að þetta sé bannað ef grannt er skoðað.

Það er mjög margt að á neytendasviði. Mér finnst þetta frumvarp ekki bera þess merki vegna þess að hvergi nokkurs staðar er nefnt að 100 milljónir eða svo eigi að fara í neytendavernd, það þyrfti náttúrlega miklu meira ef vel ætti að vera. Þetta veldur heimilum landsins gífurlegu tjóni, ómældu tjóni, sérstaklega gengislánin og það sem menn hafa verið að gera í þeim málum. Einnig þegar húsnæðisverð hækkaði og hækkaði og hækkaði, þá varaði enginn við því. Fjármálaeftirlitið sagði ekki við fólk: Gætið ykkar á bólunni. Nei, nei, þó að verðið hækkaði og hækkaði og menn vissu af hverju. Það var vegna þess að Kaupþing kom með ódýr lán inn á markaðinn á þeim tíma, verðtryggð með 4,15% vöxtum. Enginn sagði neitt, enginn varaði við. Ábyrgð stjórnvalda og Fjármálaeftirlitsins er því mikil og ég vil fara að sjá hvar neytendavernd á að eiga sér stað í kerfinu.