141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

456. mál
[11:48]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingar á lögum um greiðslukostnað á opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Hér í upphafi eru taldar upp ýmsar breytingar, bæði hvernig prósentur breytast og síðan hvernig krónutölur breytast. Í stuttu máli gengur þetta út á það að verið er að gera ráð fyrir því að lækka gjöldin á lánastofnanir en hækka gjöldin á tryggingafélög, vátryggingamiðlun, lífeyrissjóði og verðbréfamiðlara og einnig hjá Íbúðalánasjóði.

Þá staldrar maður fyrst við tvennt í því, sem snýr annars vegar að Íbúðalánasjóði og hins vegar að opinberu lífeyrissjóðunum. Við þekkjum það að þegar gjöldin á þá eru hækkuð þá eykst vandamálið á hinn endann. Við vitum hver staða Íbúðalánasjóðs er í dag, hún mun kalla á frekari útgjöld úr ríkissjóði þessi hækkun á eftirlitsgjaldi á Íbúðalánasjóð. Hið sama á við um opinberu lífeyrissjóðina, þegar gjaldið er hækkað á þá þá hækkar skuldastabbinn sem bíður okkar í hinn endann, um það bil 450 milljarðar í heildina bæði á A- og B-deildinni. Þetta þarf að hafa í huga þegar verið er að hækka gjöld á þessar tvær stofnanir. Það hefur oft komið fram að þegar menn leggja gjöld á lífeyrissjóðina eru það í raun og veru eingöngu almennu lífeyrissjóðirnir sem bera það með einhverjum hætti, það gefur augaleið.

Ég ætla aðeins að koma inn á neytendaverndina eins og tveir hv. þingmenn sem hafa talað hér á undan mér. Maður er orðinn hugsi yfir því hvernig að henni er staðið en línur þurfa að vera skýrar í því. Við sjáum hvernig það hefur verið á undanförnum árum og jafnvel áratugum, hún hefur ekki verið í nógu góðum farvegi, það er ekki nógu skýrt hvernig halda á utan um hana.

Þau dæmi sem voru nefnd hér á undan kalla á viðbrögð við því. Það er í fyrsta lagi hvernig stóð á því að menn gátu lánað gengistryggð lán með ólögmætum hætti í átta ár. Það er töluvert athyglisvert. Þegar menn skoða dómana sem féllu um þessi lán var þetta mjög skýrt þegar lögin voru afgreidd á sínum tíma. Athugasemdir komu meira að segja frá Samtökum fjármálafyrirtækjanna við lagasetninguna. Þar var bent á að ef lögin færu með þessum hætti í gegnum þingið og ekki yrðu gerðar ákveðnar breytingar á þeim mættu fjármálastofnanirnar eða fjármálafyrirtækin ekki lána gengistryggð lán.

Við þessu var ekki orðið við lagasetninguna og í ákveðinn tíma dró úr útlánum þessara lána. En svo fóru þau bara á fulla ferð aftur. Manni finnst mjög sérkennilegt að Fjármálaeftirlitið skuli ekki á þeim tíma hafa gripið inn í það. Þegar þessi dómur lá fyrir og menn fóru að setja ákveðna vexti og gerðu það afturvirkt — og við þekkjum síðustu dóma sem snúa að því að búið er að hrekja það til baka. Þetta kallar á mjög margvíslegar spurningar um það hvernig við ætlum yfir höfuð að standa að neytendaverndinni. Við þekkjum síðan þau bréf og þá pósta sem hafa borist okkur hv. þingmönnum á undanförnum vikum sem snúa að einu fjármálafyrirtæki sem heitir Drómi, hvernig haldið er um þær kröfur sem þar eru inni. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að maður er einhvern veginn ekki alveg rólegur yfir því þó svo að FME hafi gefið því heilbrigðisvottorð hvernig staðið er að því.

Þegar þær breytingar urðu sem voru gerðar á Íbúðalánasjóði 2004, með þeirri áhættustýringu sem þar var, komu nú ekki miklar athugasemdir frá Fjármálaeftirlitinu við þann gjörning og ekki var varað við því sem gæti gerst þar.

Ég ætla hins vegar helst að staldra við þá gríðarlegu aukningu sem er að verða á umsvifum Fjármálaeftirlitsins sem hafa á undanförnum fimm árum aukist um 350%. Nú ætla ég í sjálfu sér ekki að leggja mat á hversu há þessi tala þarf að vera og hef engar forsendur til þess, hvort hún hafi á sínum tíma verið allt of lág. En ég vil staldra aðeins við það sem snýr að því að þessi skattstofn sem lagður er á og eftirlitsgjöldin — og við erum með fleiri svoleiðis skattstofna og er nærtækast að nefna nefskattinn í Ríkisútvarpinu — hvernig hann fer beint í Fjármálaeftirlitið. Ég vil því taka það hér upp í þessari ræðu minni sem snýr að því hversu mikilvægt er að setja alla gjaldtöku, hvort heldur sem er í formi eftirlitsgjalds eða skatts, hvaða nafni sem hún kann að nefnast, beint inn í ríkissjóð og gera síðan rekstraráætlanir fyrir viðkomandi stofnanir þannig að þær standi klárar á því þegar búið er að samþykkja fjárlög í upphafi árs, eða í lok ársins á undan, hvert umfang stofnunarinnar á að vera.

Þverpólitísk samstaða hefur verið um það í hv. fjárlaganefnd að stíga þetta skref en einhverra hluta vegna er það nú strandað í einhverjum þingflokki, eða í einhverjum þingflokkum, ég ætla ekki að fullyrða neitt um það, en það er alla vega ekki í þingflokki sjálfstæðismanna. Það er mjög mikilvægt að gera þetta og fjármálaráðuneytið hefur verið að kalla eftir þessu í mjög langan tíma. Skýrasta dæmið sem ég vil nefna er einmitt það sem snýr að rekstri Fjármálaeftirlitsins.

Fyrir ári, í umræðum um fjáraukalögin, kom breytingartillaga frá meiri hlutanum sem var samþykkt hér um 300 millj. kr. aukningu á útgjöldum til FME. Af hverju var það? Jú, það var vegna þess að FME hafði gert ráð fyrir ákveðnum tekjum sem voru í lögunum og sagði bara: Við gerum rekstraráætlanir út frá því sem við áætlum um gildandi lög 1. janúar í upphafi árs, þannig gerum við rekstraráætlanirnar. En ef hæstv. ríkisstjórn hefði gert samkomulag við fjármálafyrirtækin — og við þekkjum það á undanförnum missirum að menn hafa oft verið að ræða um það sem snýr að skuldavanda heimilanna. Þá er Fjármálaeftirlitið búið að segja: Við gerum rekstraráætlanir okkar út frá þeim forsendum sem skatturinn eða gjöldin eiga að skila okkur.

Ef ríkisstjórnin hefði gert samkomulag til að mynda við fjármálafyrirtækin um að koma að öðru leyti inn í skuldavanda heimilanna og í framhaldi af því flutt breytingar á lögunum, við skulum segja bara á vorþinginu, sem lækkuðu gjöldin til að koma til móts við þetta, ef það væri hluti af samkomulaginu, væri FME búið að ákveða rekstraráætlun sína út árið burt séð frá því og kannski búið að binda hendur stjórnvalda á hverjum tíma. Það er ekki forsvaranlegt, virðulegi forseti, að gera það með þessum hætti. Þess vegna þarf að setja allar tekjur, hvort heldur það eru nefskattur eða eftirlitsgjöld, beint í ríkissjóð til að við getum haft rekstraráætlanir með þessum hætti. Það er hrópandi dæmi um þetta að við skulum á einum tíma, árið 2011, þurfa að setja 300 milljónir inn í þetta í gegnum fjáraukalögin.

Það er líka fróðlegt að skoða þetta aðeins í samhengi, til að mynda með því að setja aukningu á fjármunum til Fjármálaeftirlitsins í samhengi við það sem er að gerast hjá Samkeppniseftirlitinu. Það er ekki nálægt því sami vöxtur í Samkeppniseftirlitinu og er í Fjármálaeftirlitinu og að mínu mati er mjög mikilvægt að menn fari með þessar tekjur inn í ríkissjóð og viðkomandi stofnanir fái síðan rekstrarframlög í fjárlögum og þurfi ekki að vera að spá í það og geta ekki brugðist við því. Segjum sem svo að stjórnvöld hafi gert samkomulag við fjármálafyrirtækin og í því hefur falist að lækka eftirlitsgjöldin, sem auðvitað fara beint út á neytendur að lokum, þá hefði Fjármálaeftirlitið ekki getað staðið við rekstraráætlanir, það er algjörlega útilokað mál vegna þess að það tekur tíma að bregðast við því. Það er því gríðarlega mikilvægt, virðulegi forseti, að klára þessa hluti og hætta að hafa hlutina þannig að sumir geti þanist út á meðan aðrir þurfa að draga saman seglin.