141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

456. mál
[12:18]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki skilið hæstv. ráðherra öðruvísi en svo að neytendaverndinni sé vel fyrir komið hjá Fjármálaeftirlitinu. Ég fagna því. Þá liggur það fyrir.

Varðandi lögbundið eftirlitið með slitastjórnum er ég nú bara að vitna í upplýsingar sem við fengum frá Fjármálaeftirlitinu í hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Ég hef ekki orðið var við að fulltrúar Fjármálaeftirlitsins hafi mætt þangað til að segja ósatt eða blekkja nefndarmenn. Síðan náttúrlega ef við trúum þeim ekki getum við skoðað frumvarp ráðherrans og farið á bls. 46. Þar er fylgiskjal 2: Aðilar undir eftirliti 2007–2012. Slitastjórnir fara fyrst undir 2012. Þetta er plagg ráðherrans.

Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra er að blekkja með plagginu. Ég ætla hæstv. ráðherra það ekki. Ég dró þá ályktun að hann væri ekki að gera það og ég trúði bæði Fjármálaeftirlitinu og plagginu frá hæstv. ráðherra. Nú kemur hæstv. ráðherra og segir að það sé allt saman rugl og það sé haft eftirlit.

Ég spurði Fjármálaeftirlitið til dæmis að því hvernig eftirliti slitastjórnarmanna við eigin félög liði? Það liggur alveg fyrir að það á að vera undir eftirliti. Þeir hjá Fjármálaeftirlitinu sögðu að þeir hefðu ekkert verið í því og ætluðu í rauninni ekki að vera með það eftirlit fyrr en í byrjun næsta árs. Ég veit ekki alveg hvort ég á að trúa því sem hæstv. ráðherra sagði áðan eða því sem kemur fram í skjölum hæstv. ráðherra og í ummælum Fjármálaeftirlitsins. Ég held að hæstv. ráðherra verði að skýra það betur því ef eftirlitið er framkvæmt ætti líka að vera hægt um vik að fá upplýsingar sem við höfum ekki fengið.