141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

456. mál
[12:20]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi neytendamálin er ég nú búinn að svara því að minnsta kosti tvisvar ef ekki þrisvar að þau eru í raun og veru viðfangsefni bæði Neytendastofu, sem t.d. hefur eftirlit með lögum um neytendalán, og síðan hefur Fjármálaeftirlitið að sjálfsögðu skyldum að gegna þar, eins og það útlistar sjálft.

Hvað varðar slitastjórnirnar hefur Fjármálaeftirlitið útlistað sjálft hvernig það skilur og lítur á eftirlitshlutverk sitt í þeim efnum. Það telur sig fara að lögum með því og sinna þeim skyldum sem á það eru lagðar. Ég held að það sé ekki innstæða fyrir fullyrðingum um annað en að svo sé. Hversu virkt það eftirlit er eða hvaða afmörkuðu þáttum það hefur sinnt aftur í tímann þekki ég kannski ekki mjög vel, enda hafa þau mál ekki heyrt undir mig fyrr en í byrjun þessa árs. Ég veit alla vega að mjög fljótlega eftir að ég tók við starfi efnahags- og viðskiptaráðherra var samband á milli ráðuneytisins og Fjármálaeftirlitsins, m.a. um hvernig Fjármálaeftirlitið hagaði eftirliti með slitastjórnum, vegna þess að við spurðumst fyrir snemma árs um kvartanir sem komið hefðu fram um framgöngu einstakra slitastjórna og fengum fullvissu fyrir því að Fjármálaeftirlitið tæki við slíkum kvörtunum og sinnti því að fara ofan í þau mál.