141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

Íslandsstofa.

500. mál
[12:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla nú ekki að standa á móti starfsemi Íslandsstofu enda hefur hún eflaust verið ágæt, en hér er verið að festa í sessi ákveðna skattlagningu sem rennur til, hvað á ég að segja, fyrirtækis sem ekki er endilega opinbert. Þetta er fjármagnað með skattstofni sem eru laun allra landsmanna, þannig að þetta er eiginlega skattur á atvinnu. Tryggingagjaldið er þegar orðið mjög íþyngjandi á atvinnumyndun á Íslandi. Þegar fyrirtæki ræður mann í vinnu þarf það að borga heilmikil gjöld og er í rauninni refsað fyrir að skapa atvinnu.

Ég mundi nú ekki vera alveg eins glaður og hæstv. ráðherra í þessu máli. Maður þarf að átta sig á því að þetta kemur niður á atvinnusköpun í landinu, fyrir utan að ég tel mjög hættulegt að festa svona í sessi til langs tíma. Þó að starfið hafi verið ágætt hingað til er hættan alltaf sú að menn verði hóglífir þegar fram í sækir og fari að hegða sér eins og opinber fyrirtæki, fari að líta á þetta sem sjálfsagða skattlagningu eins og maður sér mjög víða, til dæmis hjá stéttarfélögum opinberra starfsmanna og ASÍ og víðar. Starfsemi sem upphaflega var ágæt stofnanagerist með aldrinum og verður klafi á viðkomandi starfsemi, þannig að ég hef dálitlar efasemdir um þetta.