141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

svæðisbundin flutningsjöfnun.

459. mál
[12:36]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 160/2011, um svæðisbundna flutningsjöfnun sem er á þskj. 583, 459. mál. Með þessu frumvarpi eru lagðar til tvær mjög einfaldar breytingar á núgildandi lögum. Annars vegar lítils háttar breyting á 7. gr. um framkvæmd styrkveitinga og hins vegar um gildistímann samanber 11. gr. laganna.

Í 7. gr. núgildandi laga er kveðið á um að umsóknum um styrki vegna flutningskostnaðar beri að skila til ráðuneytisins en í frumvarpinu er lagt til að umsóknum skuli skilað til Byggðastofnunar. Jafnframt fær hún það hlutverk að annast afgreiðslu umsókna og endurgreiðslur vegna flutningskostnaðar.

Talið er að það samræmist mun betur hlutverki stofnana frekar en ráðuneyta að annast umsýslu af þessu tagi. Auk þess verður því ekki á móti mælt að svæðisbundin flutningsjöfnun, þ.e. að koma til móts við mikinn flutningskostnað framleiðenda í fjarlægum byggðum, fellur mjög vel að hlutverki og verkefnum Byggðastofnunar og því vel skipað að fela henni framkvæmdina.

Í 11. gr. laganna er í dag kveðið á um að lögin falli úr gildi 31. desember 2012, en fyrir þann tíma var óskað eftir að ráðuneytið færi í mat á því hvort ástæða væri til að leggja til breytingar á reglum um svæðisbundna flutningsjöfnun ef þróun mála teldist gefa tilefni til slíks, eins og það var orðað í nefndaráliti meiri hlutans á sínum tíma. Þetta hefur ráðuneytið gert. Það hefur lagt mat á flutningskostnaðinn og sýna niðurstöðurnar mjög óverulegar breytingar á kostnaði frá fyrri áætlun. Í aðalatriðum er því ekki ástæða til að leggja til breytingar á styrksvæðum frá því sem er í núgildandi lögum.

Gildistími laganna miðist hins vegar áfram við gildistíma byggðakorts ESA, eða til 31. desember 2013. Þannig að hér er lögð til framlenging á lögunum um eitt ár. Áður en lögin falla þá úr gildi að ári er gert ráð fyrir að aftur fari fram sams konar endurskoðun á reglunum og þá með tilliti til nýs byggðakorts, sem vonandi liggur þá fyrir, og nýrra útreikninga á flutningskostnaði sem verði árlega framkvæmdir.

Frú forseti. Þetta er efni frumvarpsins og ég legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. umhverfis- og samgöngunefndar.