141. löggjafarþing — 49. fundur,  8. des. 2012.

almannatryggingar.

495. mál
[13:29]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, með síðari breytingum.

Í frumvarpi þessu, sem er lagt fram með hliðsjón af frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2013, er lagt til að fjárhæð frítekjumarks vegna atvinnutekna örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega við útreikning tekjutryggingar og heimilisuppbótar haldist óbreytt á árinu 2013. Frítekjumark þetta er nú 109.600 kr. á mánuði eða 1.315.200 kr. á ársgrundvelli sem þýðir að örorkulífeyrisþegar geta unnið sér inn um 110 þús. kr. á mánuði án þess að það hafi áhrif á bætur þeirra aðrar en framfærsluuppbótina sem fellur í raun niður fyrr enda eingöngu ætluð þeim allra tekjulægstu í hópi lífeyrisþega.

Samkvæmt gildandi lögum um almannatryggingar búa örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar við 300 þús. kr. frítekjumark á ári vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar. Gildir hið sama um útreikning heimilisuppbótar samkvæmt 8. gr. laga um félagslega aðstoð, en útreikningur hennar fylgir sömu reglum og þeim sem gilda um tekjutrygginguna. Þetta frítekjumark var aftur á móti stórhækkað með ákvæði til bráðabirgða sem tók gildi hinn 1. júlí 2008 og fór þá í 1.200 þús. kr. á ári, þ.e. fjórfaldaðist í krónum talið. Þegar bætur almannatrygginga voru síðan hækkaðar hinn 1. janúar 2009 um 9,6% var þetta frítekjumark einnig hækkað í samræmi við það og fór þá í 1.315.200 kr. á ári, sem er sú upphæð sem er í gildi í dag.

Þar sem frítekjumörk hafa almennt ekki hækkað frá árinu 2009 vegna þeirra erfiðleika sem við höfum búið við í íslensku samfélagi frá þeim tíma hefur bráðabirgðaákvæði þetta verið framlengt árlega og fjárhæð þess því haldist óbreytt frá árinu 2009. Er þannig gert ráð fyrir því í frumvarpinu að svo verði áfram á næsta ári. Þess ber sérstaklega að geta að verði frumvarpið ekki samþykkt og bráðabirgðaákvæðið því ekki framlengt mun frítekjumark örorkulífeyrisþega vegna atvinnutekna lækka úr 1.315.200 kr. á ári niður í 328.800 kr. sem mundi þýða lækkun úr rúmlega 110 þús. kr. á mánuði í rúmar 27 þús. kr. Það mundi hafa þær afleiðingar í för með sér að greiðslur til þeirra örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega sem hafa atvinnutekjur yfir frítekjumarkinu mundu stórlækka vegna tekjutengingarinnar.

Með því að framlengja óbreytt frítekjumark um eitt ár er þannig lögð áhersla á að styðja öryrkja áfram til atvinnuþátttöku þannig að þeir geti áfram haft atvinnutekjur upp að þessu marki án þess að það hafi áhrif til lækkunar á tekjutryggingu eða heimilisuppbót.

Hæstv. forseti. Bætur til lífeyrisþega og aðrar greiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð munu hækka um 3,9% um næstu áramót. Þá mun viðmið vegna framfærsluuppbótarinnar einnig hækka um sama hlutfall og þannig tryggja að þeir lífeyrisþegar sem búa einir hafa að lágmarki 211 þús. kr. sér til framfærslu í hverjum mánuði og þeir sem búa með öðrum tæpar 182 þús. kr. Í því skyni að ná fram markmiðum fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2013 er aftur á móti ekki gert ráð fyrir að frítekjumörk vegna tekna örorkulífeyrisþega hækki umfram það sem nú er eins og fram hefur komið.

Rétt er að minna á að Alþingi samþykkti að afnema víxlverkun á bótagreiðslum þannig að hækkanir lífeyrissjóðanna á greiðslum leiða ekki til lækkunar á bótum Tryggingastofnunar og öfugt. Þetta mun skila um 660 milljörðum kr. til örorkulífeyrisþega á næsta ári. Um leið mun frítekjumark á lífeyrissjóðstekjur ellilífeyrisþega hækka um 58% í samræmi við það samkomulag sem stjórnvöld og Landssamtök lífeyrissjóða gerðu fyrir um tveimur árum. Er áætlað að sú aðgerð muni skila um 700 milljörðum kr. til ellilífeyrisþega á næsta ári. Ég tel afar mikilvægt að lífeyrissjóðirnir nýtist vel, þ.e. að menn finni að það gagnist að hafa borgað í lífeyrissjóði. Þá umræðu þarf að taka í tengslum við endurskipulagningu á lögum um almannatryggingar og það frumvarp sem ég mun leggja fram á næstu dögum, frumvarp sem raunar liggur nú í kostnaðarmati, þ.e. ný lög sem taka við af gildandi lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð.

Hæstv. forseti. Ég hef lokið máli mínu og legg til að frumvarpinu verði að lokinni umræðu vísað til umfjöllunar hv. velferðarnefndar.